150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Áhugi ungs fólks á loftslagsmálum og áhyggjur þess af framtíðinni hafa varla farið fram hjá nokkrum manni. Við sem sitjum á Alþingi þurfum að sjálfsögðu að hugsa okkar gang um hvernig við viljum bregðast við. Nú eru til efasemdarmenn um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum. Þær raddir heyrast aðallega erlendis frá, þá frá Bandaríkjunum og Ástralíu, og eru oft hægra megin við miðju í stjórnmálunum. Röksemdir efasemdarmanna eru í fyrsta lagi iðulega þær að þetta séu einfaldlega einhverjir vinstri menn að pípa og í öðru lagi sé þetta stuðningur stjórnmálamanna við stórfyrirtæki á kostnað umhverfisins. Í þriðja lagi er oft um að ræða popúlista sem telja loftslagsbreytingar og umræðu um hana vera eitt allsherjarsamsæri, runnið úr smiðju fólks sem ætli sér sjálft að hagnast á þessu öllu. Við erum að mestu leyti blessunarlega laus við þessi sjónarmið í stjórnmálum á Íslandi.

Ég er þeirrar skoðanir að það sé auðvitað ágætt að efast um allt. Það er ágætt að efast um vísindamennina og það sem þeir halda fram. En á sviði loftslagsmála eru mjög sterk vísindi. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna er þar fremst í flokki. Þar fyrir utan getum við Íslendingar sjálfir séð þetta í okkar nærumhverfi. Við sjáum þetta á nýjum fiskstofnum sem hingað leita. Við sjáum þetta á breytingum í hafinu. Við getum talað við hvaða sjómenn sem er um það. Við sjáum þetta á bráðnun jökla og hv. þm. Inga Sæland sér þetta strax þegar hún fer til Grænlands með Vestnorræna ráðinu í næstu viku. Það eru umskipti fram undan og það er okkar hlutverk að velja hvaða leið á að fara til að bregðast við. Ætlum við að fara leið boða og banna eða ætlum við að tala um nýsköpun? Ætlum við að tala um tæknilausnir? Ætlum við að tala um samstarf þvert á atvinnulífið? Ég tel að það sé leiðin fram undan. Við verðum öll að taka þátt, hægri menn jafnt sem vinstri menn. Við eigum öll börn og unglinga á heimilum okkar og í okkar nærumhverfi og það er alveg sama hvort maður er forstjóri álfyrirtækis eða alþingismaður, maður heyrir raddirnar frá unga fólkinu. Það er okkar að koma fram með lausnirnar og það er mikilvægt að þær lausnir innihaldi bæði sjónarmið hægri og vinstri manna.