133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:44]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim svörum sem hæstv. ráðherra gaf hér áðan. Mér fannst hæstv. ráðherra alls ekki svara skýrt þeim spurningum sem fram voru settar og ég ítreka að við þurfum að fá skýrari svör en hér hafa fengist.

Landsvirkjun er langstærsta fyrirtækið á raforkumarkaði. Landsvirkjun ber höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki en við eigum að vera á svokölluðum samkeppnismarkaði þar sem keppa á í frjálsri samkeppni milli fyrirtækja og mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann nokkra leið til þess að raforkumarkaðurinn á Íslandi virki sem samkeppnismarkaður miðað við stærð Landsvirkjunar og kemur til greina eða er það ætlan hæstv. ráðherra að renna Rarik og Orkubúi Vestfjarða inn í Landsvirkjun eftir að ríkið er orðinn einn eigandi og stækka Landsvirkjun enn frekar?

Vegna ákvæðisins um að þau sveitarfélög sem eru að selja njóti þess ef selt er til þriðja aðila fyrir hærra verð en nú er verið að kaupa á, þá langar mig að biðja hæstv. ráðherra að segja okkur hver fordæmin eru í svona stórum samningum sem hann vitnaði til áðan vegna þess að mér er ekki kunnugt um að þetta sé algengt ákvæði í samningum þar sem verið er að selja stór fyrirtæki eins og verið er að gera með sölu Landsvirkjunar til ríkisins. Einu dæmin um slík samningsákvæði sem ég veit um er þegar verið er að selja fótboltamenn á milli fótboltafélaga og menn velta fyrir sér hvort verðmæti þeirra komi til með að aukast. Þegar verið er að selja fyrirtæki og einhver óvissa er uppi þá er gerður fyrirvari um áreiðanleikakönnun. Menn fara í gegnum áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fyrir liggja og taka ákvörðun um kaupverðið upp eða niður miðað við þær. Ég held að hæstv. ráðherra verði að tala skýrar hvað varðar þetta ákvæði og einnig verður hæstv. ráðherra að tala mun skýrar um það hvort komi til greina að einkavæða Landsvirkjun á næstu missirum.