135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:12]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel það ljóst, og tel að ég hafi sýnt fram á það í framsöguræðu minni, að sú hugmyndafræði sem frumvarpið byggist á er í fullkomnu samræmi við þá stefnu sem Alþingi hefur á síðustu árum markað í annarri löggjöf. Ég tiltók hér ákvæði í lögreglulögum, lögum um endurskoðendur, lögum um lögmenn og lögum um starfsfólk skattsins. Í öllum þessum lögum er kveðið sérstaklega á um að þessum tilteknu aðilum, sem fjalla um fjárhagsleg málefni einstaklinga, beri að þegja um fjárhagsleg málefni þeirra sem þeir vinna fyrir. Ég hefði haldið að þau grundvallarsjónarmið sem fram koma í frumvarpinu og sú hugmyndafræði sem það byggist á séu í samræmi við þá stefnumörkun sem hv. þingmaður og allur þingheimur hefur á síðustu áratugum verið að vinna að.

Hv. þingmaður gerir mikið úr aðhaldshlutverki þess að leggja fram álagningar- og skattskrár og ég ætla aðeins að víkja að því. Ég tel að yfirvöld, verkalýðsfélög og aðrir sem gera launakannanir geti eftir sem áður fylgst með launaþróun á markaði þrátt fyrir að laun allra einstaklinga séu ekki birt og þeir nafngreindir. Það er gert án þess að laun fólks séu tiltekin og birt í fjölmiðlum. Við getum gert það eftir sem áður, hvort sem skrárnar eru lagðar fram eða ekki, og auðvitað eigum við að gera það, við eigum að vinna gegn launamun kynjanna og slíkum þáttum.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann, fyrst hann er hlynntur því að þessar skrár séu lagðar fram: Eigum við þá ekki bara að (Forseti hringir.) ganga alla leið? Eigum við þá ekki líka að birta upplýsingar t.d. um bætur fólks (Forseti hringir.) og birta upplýsingar um inneignir manna á bankareikningum? (Forseti hringir.) Gilda ekki sömu rök um slíkar upplýsingar?