136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[12:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér kemur ekki til hugar að ætla að hér sé einhver mannvonska á ferðinni með því að fylgja þessu máli úr hlaði einu sinni enn. Vissulega var það afgreitt til síðari umr. á síðasta þingi, ef ég man rétt, en það hefur ekki fengið afgreiðslu enn þá og enn á ný kemur það fram hér.

Ég vek athygli á því að í greinargerð með þingsályktunartillögunni er 17 sinnum rætt með einhverjum hætti um sjúkrahús, heilsugæslu, spítala, heilbrigðisstétt, heilbrigðisvísindi, sjúkrahússtarfsemi o.s.frv. og tiltekin orð sem tengja má þeirri starfsemi. Í stórum kafla greinargerðar með þingsályktunartillögunni er vakið máls á því að ef til vill mætti víða ganga inn í heilbrigðiskerfið og finna þar tækifæri til að draga út úr sjúkrahúsunum, út úr samfélagsþjónustunni, og færa einkaaðilum. Það finnst mér varasamt.

Ég held að ef íslenska þjóðin hefur einhvern tíma þurft á því að halda að hér sé traust samfélagsþjónusta, að kjölfesta sé í þjónustu hins opinbera, í allri samfélagsþjónustunni upp úr og niður úr, sé það í dag. Mér finnst það ábyrgðarhluti af þeim hv. þingmönnum sem leggja þessa tillögu fram í fjórða sinn — því að þeir hafa ekki fengið hana afgreidda á undanförnum þingum — að velja þennan tíma núna þegar samfélagið er meira og minna í uppnámi og hefur nóg við að glíma frá degi til dags. Mér finnst það ábyrgðarhluti að færa fólki slíkar hugmyndir eins og þær sem finna má í þessari þingsályktunartillögu, í þeim anda sem í henni er.