140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og kennslustund í áhrifum aukinna fjárfestinga á efnahagslífið. Okkur veitir örugglega ekki af vegna þess að ég er sammála því að ekki hefur verið nóg að gert til að efla fjárfestingu í landinu.

En ég er hingað komin til að ræða önnur mál. Hér er smáklausa í þessari greinargerð sem við ræðum með frumvarpi um efnahagstillögur sjálfstæðismanna þar sem talað er um að OECD hafi komist að því að skattbyrði hér á landi sé með því þyngsta sem gerist í aðildarlöndunum. Ástæðan er sú að greiðslur inn í lífeyrissjóðina séu mjög þungar, sem sagt ef maður bætir þeim ofan á tekjuskattsgreiðslur og aðra óbeina skatta sé skattbyrðin miklu þyngri hér en annars staðar. Þá velti ég því fyrir mér hvort leiðin til að draga úr skattbyrði sé einmitt að umbreyta lífeyrissjóðakerfinu. Lífeyrissjóðakerfið sem við höfum í dag hefur verið byggt upp á mjög skömmum tíma með miklum greiðslum frá vinnandi fólki, frá þeim sem eru yngri á vinnumarkaði. Það fólk greiðir inn í lífeyrissjóðina fyrir sig til að öðlast sjálft lífeyrisréttindi og að greiða inn fjármagn til að fjármagna útgreiðslur úr lífeyrissjóðunum fyrir eldri kynslóðirnar. Yfirleitt vara hagfræðingar við því að farið sé svona hratt í að byggja upp lífeyrissjóðakerfið þannig að ég velti bara fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að við höfum farið of skarpt í að byggja hér upp lífeyrissjóðakerfið sem er stærra hér en nokkurs staðar annars staðar.