142. löggjafarþing — 18. fundur,  1. júlí 2013.

njósnir Bandaríkjamanna í Evrópu.

[15:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að það sé í upphafi mikilvægt að gera sér grein fyrir því að væntanlega — nú er kannski ekki allt alveg staðfest og á hreinu með þetta mál allt saman, en það ætti ekki að koma okkur á óvart að öflugustu og stærstu ríki heims stundi einhverja njósnastarfsemi enda hefur komið í ljós að bresk stjórnvöld eru með eitthvert svona batterí á sínum snærum.

Það er hins vegar alvarlegt ef satt reynist að stjórnvöld, hverju nafni sem þau heita, séu að njósna um sína helstu bandamenn og ég held að það kalli að sjálfsögðu á skýringar, í það minnsta að það sé þá upplýst hvort það hafi átt sér stað. Það er ekki ljóst að mínu viti hvað er algerlega satt og rétt í þessum fréttaflutningi en svo virðist vera að einhvers konar starfsemi hafi verið gagnvart bandamönnum innan Evrópu og Evrópusambandsins og höfum við að sjálfsögðu áhyggjur af því.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur krafið Bandaríkjamenn svara og við fylgjumst grannt með hvernig það mál mun þróast. En við höfum nú þegar, svo að það sé sagt, gert athugasemdir við bandarísk stjórnvöld hér á Íslandi, þ.e. við höfum haft samband við sendiráðið í Reykjavík og í gegnum sendiráð okkar í Washington og komið athugasemdum okkar á framfæri og spurt þeirrar spurningar eða sagt að það hljóti að vera óheppilegt og jafnvel óhugsandi að bandarísk stjórnvöld hafi stundað slíka starfsemi á Íslandi og það sé þá þeirra að svara því. Það er sá bolti sem við sendum í rauninni til þeirra. En við eigum að sjálfsögðu ekki að vera það barnaleg að halda, séu einhver erlend ríki að njósna um önnur ríki í Evrópu eða annars staðar, að við séum eitthvað undanskilin þar.