145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er orðinn aðeins of gamall til þess að karpa um skilgreiningar á orðum, en áfengi er dóp og ég ætla aldrei að draga neitt úr því að það er með hættulegri vímuefnum sem finnast á markaðnum, löglegum eða ólöglegum, ef út í það er farið. Það er ekki eitthvað sem ég kæri mig um að rökræða. Það er hægt að tala við heilbrigðisstéttirnar um það.

Hv. þingmaður talar um að hann og hans skoðanabræður og -systur vilji hafa þetta lýðheilsusjónarmið og frelsið í þeim skilningi gangi á þann viljarétt. Ég trúi því ekki að frjálst fólk hafi rétt á því að samfélagið sé eins og það vill hafa það, eins og einstaklingar vilja hafa það. Ég trúi ekki á rétt einstaklinga til að ákveða fyrir alla aðra hvernig samfélagið eigi að vera. (Gripið fram í.) Ég tel að samfélagið eigi að mótast sem mest sjálft (Gripið fram í.) út frá eigin gildismati, (Gripið fram í.) en auðvitað með varnöglum sem við erum að ræða hér og er mikilvægt að ræða.

Annars er ég með lausn á þessu, virðulegi forseti, sem er sú að einstaka svæðum sé gert kleift að ákveða upp á eigin spýtur hvernig þau vilja hafa fyrirkomulagið. Þá gæti hv. þingmaður valið dvalarstað sinn eftir því hvernig hann vill hafa þetta og ég gæti valið minn dvalarstað eftir hinu sama.