148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið eða að staðfesta þann fund sem þarna var haldinn. Það er rétt að á fundinum var farið nokkuð vel yfir málið allt saman. Sú saga fullyrðinga sem fulltrúi þessa verkefnis dró upp, þ.e. Hringbrautarverkefnisins, var mjög snyrtilega skotin niður af arkitektum, skipulagsfræðingum og læknum sem þarna voru og fjölluðu um málið.

Tillagan sem við ræðum hérna er í rauninni tillaga um að gera eina tilraun enn, að við förum í gegnum staðarvalið og komumst að því í ljósi allra þeirra upplýsinga sem settar eru fram að samfélagið hefur þróast mjög mikið frá því að menn fóru í þessa vegferð. Skoðum málið betur. Það getur ekki verið varasamt að gera slíkt því að það er ekki verið að senda nein önnur skilaboð en þau að rétt sé að skoða málið betur út frá því hvernig allt hefur þróast í samfélaginu. Það er í raun það sem við erum að segja. Búið er að benda á suma af þessum hlutum margoft.

En það er rétt að fundurinn í Norræna húsinu var býsna góður, vel sóttur og ítarlegur.