149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

málefni öryrkja.

[11:33]
Horfa

Snæbjörn Brynjarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er vel hægt að afnema krónu á móti krónu skerðinguna án þess að fara í stórtækar kerfisbreytingar. Það er ein einfaldasta einföldun sem hægt er að fara í. Skerðingin veldur stórum hópi fólks miklum áhyggjum sem það ætti ekki að þurfa að hafa, auk þess sem hún dregur úr öllum hvata til að taka þátt í vinnumarkaðnum. Þetta sendir líka þau skilaboð til öryrkja að þeir séu einhvern veginn minna virði en annað fólk.

Ef við viljum virkilega draga úr örorku þurfum við að fara aðrar leiðir en út í starfsgetumat. Við ættum frekar að skoða frumvörp sem snúa að styttingu vinnuvikunnar. Þannig berjumst við gegn kulnun í starfi. Þannig drögum við úr hinni miklu aukningu geðsjúkdóma sem er meðal ungs fólks í dag.

Píratar styðja afnám krónu á móti krónu skerðingar. Við erum einnig með mjög gott frumvarp sem gengur út á styttingu vinnuvikunnar. Með því móti værum við að fara í átt að því sem aðrar Evrópuþjóðir eru að gera, nálgast Norðurlöndin, og í raun svara gagnrýni sem OECD hefur sett fram á okkur um að vinnuálag sé fullmikið á Íslandi.