150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:24]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég að lýsa því yfir, af því að hæstv. utanríkisráðherra saknaði þess úr ræðu minni, að auðvitað vil ég standa vörð um EES-samninginn. Ég tel einmitt að orkupakkaumræðan hafi þjappað okkur frekar saman um það. En ég vil í fyllingu tímans ganga enn lengra. Jú, ég hef vissulega áhyggjur af ýmsu og ég hef í rauninni áhyggjur af öllu sem ég geri í lífinu og stundum hefur það verið þannig að það sem ég hef haft mestar áhyggjur af hefur á endanum skilað mér mestu.

Þegar talað er um að það hafi verið gott fyrir okkur að hafa okkar eigin gjaldmiðil þegar hlutirnir fóru á verri veg og hrundu, þá skulum við líka muna hverjir það voru sem virkilega töpuðu á því. Hverjir eru það yfirleitt sem tapa á því þegar gjaldmiðill hrynur eða gengið fellur? Þá eru það útflutningsgreinarnar sem þurfa aðstoð og þá er farið ofan í vasann á launafólki og kjör þess rýrð. Það þarf því að horfa á hlutina í ýmsu samhengi og ég held að kostir og gallar séu við hvort tveggja. Sumir hafa sagt að íslensk króna sé góð vegna þess að hún deili í rauninni byrðinni sem verður af hruni eða falli gjaldmiðils á alla. En það er ekki þannig. Henni hefur verið deilt á allt venjulegt fólk skulum við segja, allt launafólk í landinu á meðan stórútgerðin hefur á síðustu 10–15 árum grætt bæði í niðursveiflu og uppsveiflu. Það er líka áhyggjuefni sem mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um, hvort honum finnist það ekki sérkennilegt.

Með eigin viðskiptamál er því til að svara að ég held að innan Evrópusambandsins fengjum við einfaldlega betri aðgang að fleiri mörkuðum vegna þess að ég held að fyrir litla þjóð séu tvíhliða samningar veikari. Hvað varðar landbúnaðinn þá væri nú ágætt að fá smáuppbrot á honum, ekki síst fyrir bændur þannig að þeir geti farið að fá mannsæmandi kjör.