150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[15:46]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort mér misheyrðist að þingmaðurinn væri að óska eftir sambandsaðild á grundvelli neytendaverndar eða hvort um mismæli var að ræða. En jú, neytendaverndin er mikill kostur, einn af mörgum á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er svo margt í þessu. Ég hef t.d. verið mjög jákvæð gagnvart ýmsum reglugerðum og tilmælum sem hafa komið þaðan vegna þess að ég held að íslenska stjórnkerfið sé að mörgu leyti óþroskað. Við höfum ekki burði til að vinna að t.d. vandaðri neytendavernd. Við höfum ekki borið gæfu til þess. Við höfum ekki burði til þess, að ég tel, í svona litlu samfélagi, og stjórnkerfið og stjórnsýslan hefur grætt stórkostlega á þessu samstarfi, ekki bara neytendavernd.

Mér heyrist við vera sammála um að það sé kannski ekki skynsamlegt að hlusta á orð efasemdarfólks varðandi evrópska samstarfið og loka svolítið á tækifæri og möguleika unga fólksins og einangra það hér heima með því að gagnrýna þetta samstarf og kannski einblína á gallana. Í því sambandið langar mig að minnast á eitt en það er samstarfsáætlun sem við höfum ekki tekið þátt í hingað til en mættum alveg hugsa tvisvar um. Þetta er sérstakt áhugamál Pírata og er evrópska geimáætlunin, eða, með leyfi forseta, The European Space Program.