149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áfengisauglýsingar.

116. mál
[17:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu fyrirspurn sem gefur okkur tækifæri til þess að ræða stöðu áfengismála heildstætt og auðvitað stöðu einkarekinna fjölmiðla líka, en fyrirspyrjandi kýs að tengja þessi mál saman, þ.e. tengja stöðu einkarekinna fjölmiðla við áfengisauglýsingar.

Ég vil taka það fram að í þeirri skýrslu sem fyrirspyrjandi og hv. þingmaður vék að og kom út nýverið, í ágúst á þessu ári, skýrslu nefndar sem menntamálaráðherra skipaði, vakti athygli mína að í niðurstöðukafla hennar er, þvert á það sem hv. þingmaður nefndi, lagst gegn því að heimila áfengisauglýsingar. Það vakti undrun mína vegna þess að í skýrslunni sjálfri er fjallað nokkuð ítarlega um áfengisauglýsingar og ekki verður annað séð og er sérstaklega tekið fram þar að meiri hluti nefndarmanna hafi verið þeirrar skoðunar að taka ætti auglýsingabannið til endurskoðunar. Ég veit ekki hverju það sætir að niðurstaða nefndarinnar sem skilað var til ráðherra er önnur en niðurstaða meiri hluta nefndarmanna.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé fullt tilefni til að endurskoða þetta auglýsingabann. Fyrir því liggja ýmsar ástæður. Það bann sem kemur fram í 20. gr. áfengislaga er nokkuð afdráttarlaust, en er þó þannig að það býður upp á ýmiss konar sniðgöngu ef svo mætti að orði komast. Menn þekkja auglýsingar um léttöl, menn þekkja það þegar menn nefna jafnvel heilu veitingastaðina eftir íslenskum framleiðsluvörum, og þegar áfengisinnflytjendur eða framleiðendur taka að sér að styrkja ýmsa viðburði. Allt eru þetta auglýsingar með óbeinum hætti. Ég tel fara miklu betur á því að menn hafi leyfi til annars konar auglýsinga en með þessum óbeina hætti þannig að það sé gagnsærra um hvað er verið að ræða þegar auglýst er, menn átti sig betur á því þegar verið er að auglýsa áfengi heldur en nú er.

Ég er hins vegar ekki alveg reiðubúin til þess að taka upp þessi mál á þeim forsendum að þetta sé eitthvert sáluhjálparatriði fyrir einkarekna fjölmiðla í samkeppnisstöðu við ríkið. Ég held að fjárhagsvandi og vandi einkarekinna fjölmiðla stafi ekki af því að þeir geti ekki auglýst áfengi. Ég er ekki einu sinni viss um að það muni hjálpa einkareknum fjölmiðlum svo mikið, að sjálfsögðu eitthvað auðvitað, að fá inn auglýsingatekjur af þessari vöru. Vandi einkarekinna fjölmiðla felst miklu frekar í því og fyrst og fremst að mínu mati í þeirri samkeppnisstöðu sem einkareknir fjölmiðlar eru í gagnvart ríkinu. Ég held að það sé mjög brýnt að skoða það. Ég er reyndar ekki sannfærð um að það dugi einhver bútasaumur með ýmsum einangruðum aðgerðum til þess að mæta þeim vanda. Ég held að vandinn liggi fyrst og fremst í aðkomu ríkisins að fjölmiðli, eða fjölmiðlum vegna þess að Ríkisútvarpið rekur fjölmargar rásir. Ég tel brýnt að skoða það miklu frekar.

Ég tek líka undir það hjá hv. þingmanni að það þarf að líta til samkeppnisstöðu íslenskra framleiðenda. En fyrst og fremst held ég að það þurfi að líta á þetta mál, þ.e. áfengisauglýsingar, út frá sjónarmiðum neytenda, vegna þess að neytendur eiga rétt á því og það er til hagræðis fyrir neytendur að þekkja þær vörur sem eru á boðstólum. Ég tel að það sé heppilegt að afnema áfengisauglýsingabannið á þeim grunni.

Ég held hins vegar að það þurfi líka að skoða áfengisauglýsingabannið í ljósi einkaréttar ríkisins. Það kemur alltaf upp aftur og aftur einkaréttur ríkisins í þessum málum, bæði í útvarpsrekstri og áfengissölu. Ég held að það ætti að vera forgangsatriði í þessu að afnema einkasölu ríkisins á áfengi. Með þeim hætti væri hægt að koma til móts við þetta neytendasjónarmið sem ég nefndi án þess að heimila víðtækar áfengisauglýsingar vegna þess að með aðkomu einkaaðila að sölu á áfengi gæfist bæði framleiðendum og söluaðilum tækifæri til þess að nálgast sína viðskiptavini með beinni og markvissari hætti en nú er gert með þeim óbeinu duldu auglýsingum sem við þekkjum í dag.