133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:52]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er raunar alveg hægt að taka undir það að menn vonist til að hægt verði að ná sem mestri sátt um grundvallarstofnanir í samfélagi okkar. En það er nú bara einu sinni þannig að þegar maður hlustar á það sem sagt hefur verið um Ríkisútvarpið, þó ekki sé tekið annað en það sem stjórnarandstaðan hefur sagt um Ríkisútvarpið í gegnum tíðina, þá er alveg ljóst að það er ekki einu sinni samhljómur hennar á meðal.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ekki er hægt að ráða annað — eftir að hafa lesið yfir ræður þingmanna frá síðasta vetri um Ríkisútvarpið og átt ágæt samskipti við þingmenn í stjórnarandstöðunni, sem m.a. fóru þess á leit við mig síðasta vor að fresta umræðu um Ríkisútvarpið þar til hægt væri að ræða skýrsluna og Ríkisútvarpið saman — en að menn hafi allan tímann viljað ræða þetta saman. En svo þegar það bauðst um daginn að ræða málin saman, það var líka farið fram á það í vor sem leið … (Gripið fram í.) Af hverju tóku menn þá ekki því að ræða þetta saman? Ég get ekki annað sagt en að þetta sé fyrirsláttur.

Við vitum líka að þessi vinna varðandi Ríkisútvarpið hefur lengi legið fyrir. Ég geri mér hins vegar vonir um það eftir að hafa fylgst með þeirri vinnu og tekið í rauninni þátt í henni núna með því að kalla fram þetta frumvarp til umræðu í dag varðandi fjölmiðlana, að við náum að halda þeirri vinnu áfram sem átt hefur sér stað á grundvelli fjölmiðlaskýrslunnar hinnar síðari. Og að menn vinni þetta mál í sem mestri samstöðu innan hv. menntamálanefndar og að sjálfsögðu er það formaðurinn þar sem ræður för í samráði við nefndarmenn sem þar eru.