135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa einlægan hug hv. þm. Guðbjarts Hannessonar varðandi stofnun háskóla á Ísafirði, ég heyrði hv. þingmann taka það svo skýrt fram í aðdraganda kosninga á síðastliðnu vori að ég hef enga ástæðu til þess. Hins vegar hlýtur það að valda vonbrigðum þegar ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er komið á að eitt stærsta málið sem Vestfirðingar hafa borið fram, stofnun sjálfstæðs háskóla á Ísafirði, skuli enn einu sinni vera sett í nefnd.

Það er nú ekki svo að þetta mál hafi ekki áður verið í nefnd. Ég held að ég minnist a.m.k. tveggja nefnda á þeim skamma tíma sem þetta ferli hefur staðið um stofnun háskóla á Ísafirði, fyrir utan Vestfjarðanefndina sjálfa sem lagði þetta mjög afdráttarlaust til, og svo skal málið nú sett aftur í nefnd. Af því að hv. þingmaður á aðild að ríkisstjórnarsamstarfinu og um leið þeirri ákvörðun sem þarna var tekin vil ég spyrja hann: Var þetta virkilega nauðsynlegt? Var haft samráð við þingmanninn um að setja þyrfti málið í enn eina nefndina? Ég hefði skilið það ef tekin hefði verið pólitísk ákvörðun um stofnun háskóla og svo hefði verið skipuð nefnd til að útfæra hana í einstökum atriðum, ef tekin hefði verið pólitísk ákvörðun eins og gefin voru fyrirheit um. En að setja málið aftur í nefnd til þess að skoða stjórnsýslulega stöðu og hvað eigi að gera, ég verð að lýsa mikilli óánægju með það og tel það hafa verið algjöran óþarfa og ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi verið aðili að (Forseti hringir.) slíkri ákvörðun.