149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:20]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að hafa þetta frumkvæði og sömuleiðis hæstv. ráðherra að taka þátt í umræðu sem er bæði tímabær og nauðsynleg — ekki ný af nálinni en okkur verður að miða áfram í þessari umræðu.

Það er mikil áskorun að búa sauðfjárbændum og bændastéttinni almennt sómasamleg starfsskilyrði til langs tíma í stað þess að þröngva í gegn lausnum sem jafnvel er ósætti um meðal þeirra sjálfra og í samfélaginu. Það á að vera kappsmál að einfalda stuðningskerfi í landbúnaði, gera það gegnsætt og skiljanlegt en ekki að stagbæta úrelt kerfi sem heldur sauðfjárbændum í helsi, nánast í gíslingu. Nýliðun er orðin mjög erfið og nánast útilokað að komast inn í greinina í sumum tilvikum.

Verkefnið ætti að vera að færa bændur nær markaðnum, færa greinina nær markaðnum; hugsun framboðs og eftirspurnar, að efla frumkvæði. Það er sannfæring mín að bændur vilji taka þátt í því ferli sem óhjákvæmilega er fram undan af samfélagslegri ábyrgð og styðjast við vísindalega aðferðafræði.

Hluti af því stóra verkefni er að takast á við loftslagsmálin, umhverfisþættina; að takast á við losun gróðurhúsalofttegunda sem er umtalsverð í hefðbundnum landbúnaði. Nýsköpun er hugtak sem notað er seint og snemma og framþróun sömuleiðis. Þar þurfum við að gera meiri kröfur til aflanna sem ráða í landbúnaði. Tökum sem dæmi þá bændur sem lagt hafa sig fram og fengið vottun um lífræna ræktun lambakjöts. Það virkar þannig að afurðastöðvunum finnist fátt um og taki lítið undir slíkt frumkvæði. Þessar afurðir eru einmitt verðmætar, litlir sprotar sem geta vaxið og dafnað.

Frú forseti. Við þurfum að hlúa að bændum sem stunda sauðfjárrækt á þeim svæðum landsins sem henta best. Við óbreytt hlutskipti geta bændur ekki unað og upp á það eigum við ekki að bjóða neinni svo mikilvægri starfsgrein.