152. löggjafarþing — 19. fundur,  28. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:02]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna, að mörgu leyti mjög góð ræða og gaman að fá hv. þingmann inn á þing og heyra hver hans sýn er á þingstörfin. Hv. þingmaður nefndi 500 millj. kr. í streymisveitur. Það er svolítið ruglandi framsetning í fjárlögunum, það er það fyrsta sem ég las líka út úr viðkomandi dálki. En það er ekki svo. Þessar 500 milljónir fara í framfylgd á kvikmyndastefnu sem mótuð hefur verið og ég held að það séu 5 milljónir sem okkur hefur verið sagt að fari í streymisveitu og er hugsunin sú að koma gömlum íslenskum kvikmyndum, sem ekki hafa burði til að að vera veitt í gegnum aðrar streymisveitur, í loftið þannig að menningararfurinn lifi áfram. Við vorum fullvissuð um það í fjárlaganefnd að þetta færi ekki í einhvers konar samkeppni við annað efni. Ég vildi bara að það kæmi hér fram.