144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Stærð er afstætt hugtak. Það hvort eitthvað sé stórt eða lítið er mjög tengt því við hvað er miðað. Pólitísk stærð er sjálfsagt enn þá erfiðari viðfangs í þessum efnum og mjög afstætt hugtak.

Ég ætla engu að síður að hætta mér út í það að segja nokkur orð um pólitíska stærð, til dæmis um pólitíska stærð oddvita ríkisstjórnarflokkanna, sem ég sé nú reyndar að hvorugur er hér í salnum, en við munum hvernig þeir líta út. Þá á ég að sjálfsögðu ekki við það að fjármálaráðherra sé einir 190 sentímetrar á hæð eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson góð 100 kg á þyngd. Nei, ég á við það hvernig þessir foringjar núverandi ríkisstjórnarflokka fylla út í sín pólitísku föt.

Það má prófa að búa til kvarða. Tökum þann kvarða að á síðasta kjörtímabili leiddu þessir menn stjórnarandstöðuna sem var sú harðdrægasta og heiftúðugasta sem elstu menn í pólitík muna.

Hér á Alþingi var iðulega stundað skipulegt eyðileggingarstarf og margir hafa talið að þetta nái helst samjöfnuði við heiftúðuga stjórnarandstöðu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, Sjálfstæðisflokksins gegn ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Hvernig bregður svo þessum mönnum hafandi staðið svona að verki í stjórnarandstöðu þegar þeir eru orðnir leiðandi í ríkisstjórn? Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var varla kominn með annan fótinn inn í Stjórnarráðið og það var ekki byrjað að anda á hann þegar hann fór að tala um loftárásir á sig, loftárásir. Ég hef ekki séð í fjárlagafrumvarpinu að sótt sé um fjárveitingar til að byggja loftvarnabyrgi í Stjórnarráðinu, en kannski er búið að því og þá fyrir peninga úr græna hagkerfinu.

Tökum annan mælikvarða, árangurinn í ríkisfjármálum. Það er ánægjulegt eins og ríkisstjórnarliðið segir dögum oftar að nú verður lagt fram annað fjárlagafrumvarpið í röð án halla. En kom það af himnum ofan? Þurfti ekki eitthvað til? Hafið þið heyrt þá segja að það sé vegna þess að með þrotlausum, erfiðum en árangursríkum aðgerðum allt síðasta kjörtímabil batnaði afkoma ríkissjóðs jafnt og þétt úr geigvænlegum 140 milljarða halla á þáverandi verðlagi 2009 í jöfnuð 2013? Því þegar ríkisreikningur kemur nú fram sýnir hann að á síðasta fjárlagaári sem fyrri ríkisstjórn bar ábyrgð á með fjárlögum sínum var ríkissjóður rekinn með jöfnuði, nokkurn veginn jöfnuði. Á þetta er aldrei minnst. Er það stórt í pólitík að geta ekki látið forvera sína í embætti njóta sannmælis fyrir nokkurn skapaðan hlut?

Tökum hagvöxtinn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson talar alltaf þannig um hagvöxtinn að hann hafi gengið í garð daginn sem hann skakklappaðist inn í Stjórnarráðið. Hann nefnir það aldrei einu orði að hagvöxtur hófst á Íslandi undir lok árs 2010. Og já, það er gleðilegt að við höfum nú búið við hagvöxt fjögur ár í röð. En það eru fjögur ár í röð, það er ekki frá því í maílok 2013. Er það stórt að reyna að tala svona um þetta gegn opinberum hagtölum og staðreyndum? Nei, það er ekki mjög stórt. Minnkandi atvinnuleysi. Það er alltaf talað eins og ný störf og atvinna hafi fyrst farið að skapast þegar þessi ríkisstjórn tók við. En er það ekki veruleikinn að atvinnuleysi náði hámarki á útmánuðum 2010 og hefur lækkað jafnt og þétt síðan meðal annars vegna þess að hlúð var að og stutt við vænlegar vaxtargreinar í íslensku atvinnulífi? Það gerði fyrrverandi ríkisstjórn. Hún veitti fjármuni í markaðssetningu og ferðaþjónustu. Hún setti lög um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar í sprotafyrirtækjum. Hún fór að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustunnar, bætti í samkeppnissjóði o.s.frv. Hún lagði því líka þennan grunn.

Mín niðurstaða, herra forseti, af þessum hugleiðingum er sú að formenn stjórnarflokkanna — og eftir höfðinu dansa limirnir eins og við heyrðum hér áðan — séu að vísu hinir vörpulegustu menn á velli. En þegar kemur að því að kvarða þá á þann mælikvarða hvort þeir geta látið forvera sína í embætti njóta sannmælis séu þeir varla hálfvaxnir menn.