146. löggjafarþing — 2. fundur,  7. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:01]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina athygli minni að þessum svokallaða skattastyrk. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið þessar tilteknu blaðsíður. Þær eru nokkrar reyndar, þær blaðsíðurnar sem ég hef ekki lesið í fjárlagafrumvarpinu enn þá, ekki gefist ráðrúm til þess. Eins og þingmaðurinn lýsir skattastyrknum í þessu samhengi þá skil ég einfaldlega ekki forsendurnar, ég verð alveg að viðurkenna það, eða þá hugmyndafræði sem liggur að baki.

Ég hef hins vegar rætt það margoft í þessum stól, og við í Bjartri framtíð, að hinn raunverulegi skattastyrkur, sem eru ýmis konar ívilnanir, t.d. til stóriðju, það eru eins og þingmaðurinn segir réttilega hinir raunverulegu skattastyrkir sem ríkið gefur eftir en almenningur þarf að borga. Almenningur borgar innviðina, rafmagnsstaurana, virkjanirnar, menntakerfið og hvað það heitir, sem svo stóriðjan í sínum rekstri notar eins og allir aðrir hér í landinu. Þetta eru því raunverulegir skattastyrkir sem á að taka út, finnst mér, og það á að auka jafnræði fyrirtækja með því þá að lækka frekar skatta á öll fyrirtæki en ekki þau fyrirtæki sem hingað koma til að nýta auðlindir okkar og borga svo sáralítið fyrir það.