135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

atvinnuleyfi fyrir erlenda sérfræðinga.

135. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðfinna S. Bjarnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir gott svar og jákvæðar undirtektir. Ég fagna því sérstaklega sem fram kom um að ráðherra hygðist leggja fram frumvarp á yfirstandandi þingi um þetta mál. Það nefnilega varðar samkeppnishæfni okkar. Það kom reyndar fram í máli ráðherra.

Það má líta á sérfræðiþekkingu sem mikilvæga og eftirsótta auðlind í uppbyggingu menningar-, atvinnu- og efnahagslífs heimsins. Það er alþjóðlega mikil eftirspurn eftir sérfræðimenntuðu starfsfólki og yfirvöld sýna þessu víða skilning, m.a. með svokölluðu grænu korti í Bandaríkjunum og eins og ráðherra réttilega nefndi er mikil umræða um svokallað blátt kort í Evrópu.

Ég veit til þess að Vinnumálastofnun hefur reynt að hraða afgreiðslu í sérstökum tilfellum en við þurfum einfaldlega lög. Ég endurtek hér með þakkir til ráðherra um að frumvarp um þetta verði lagt fyrir þetta þing.