138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vörumerki.

46. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka fyrir viðbrögð hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og ég lít svo á að við ætlum þá að fara yfir þetta mál í hv. viðskiptanefnd. Hér hafa menn nefnt aðra valkosti. Ég ætla aðeins að minna á eitt vegna þess að hér var lagt upp með það í sumar að við hefðum aðra valkosti en að samþykkja það frumvarp sem var lagt fram í maí. Svo var sagt. Nú segja sömu aðilarnir að málið eins og það liggur fyrir núna, og ég ætla ekkert að fara yfir það hvort það sé rétt eða rangt, sé miklu betra. Í það minnsta er það allt öðruvísi en það sem menn lögðu upp með í byrjun sumars og sögðu að við þyrftum að samþykkja umyrðalaust.

Þessir sömu aðilar sem eru í forustu í ríkisstjórninni sögðu líka að þau skilaboð hefðu verið send að þetta gæti valdið erfiðleikum í íslenskum stjórnmálum og það að einn hæstv. ráðherra hefði sagt af sér hafði mikil áhrif. Hæstv. ríkisstjórn er búin að gefa tóninn. Það er algjörlega ljóst að við getum haft áhrif. Þess vegna er ég afskaplega ánægður með það, virðulegi forseti, að þetta mál verði tekið fyrir í nefndinni. Þetta er nákvæmlega mál sem við skulum ekki flýta okkur mikið í og við skulum fara vandlega yfir það. Það eru allir efnislega sammála um að málið er vont. Nú skulum við gæta hagsmuna Íslendinga og taka þann tíma sem þarf til að fara yfir það hvernig við getum best unnið úr þessari stöðu.

Ég fer, svo því sé algjörlega til haga haldið, fram á að málið verði tekið inn í nefndina á milli umræðna.