135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

byggðarlög á Austurlandi sem standa utan áhrifasvæðis álversframkvæmda.

120. mál
[14:31]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það gerist ekki oft að ég sé nákvæmlega sammála hv. þm. Birki Jóni Jónssyni en ég verð þó að segja að ég er honum algerlega sammála um þau kjör sem hann greindi frá að byggðarlög á Austurlandi utan vaxtarsvæða og áhrifasvæða álversins sæti í dag.

Svar mitt við spurningu hv. þingmanns getur verið stutt og beinskeytt. Ég hef í hyggju að skoða það alvarlega að setja upp nefnd eða verkefnisstjórn af þessu tagi. Ég er þeirrar skoðunar að nokkur sveitarfélög í landinu hafi orðið verulega afskipt. Við þekkjum auðvitað Vestfirði og Norðausturland en þangað hefur afl og atgervi ríkisstjórnarinnar beinst í töluverðum mæli. Því miður er það svo að sama athygli hefur ekki beinst að sveitarfélögum t.d. á suðurfjörðum Austfjarða og reyndar á norðausturhorninu í kjördæmi hv. þingmanns. Ég segi það alveg hreinskilnislega að hjarta mínu blæðir vegna þessara byggðarlaga. Ég veit að fólki í þeim hefur verið að fækka og ég veit að sogkraftur álversframkvæmdanna á Austurlandi hefur ekki hvað síst bitnað á þeim.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að til mín komu forsvarsmenn Sambands sveitarfélaga á Austfjörðum með ákveðna hugmynd. Hún laut að því að ráðuneyti mitt mundi setja upp nefnd, eins konar verkefnisstjórn til að skoða ýmsa möguleika sem þeir reifuðu einnig við mig. Nú skal ég vera ærlegur við hv. þingmann, frú forseti, ég tók ekki sérlega vel í form þeirrar hugmyndar sem mér var borin. Ég sagði hins vegar að það væri miklu vitlegra og miklu farsælla til árangurs að sett yrði upp verkefnisstjórn af þessu tagi með aðkomu fleiri ráðuneyta en iðnaðarráðuneytisins, þ.e. tveggja annarra öflugra ráðuneyta, fjármálaráðuneytisins og þess ráðuneytis sem fer með málefni sveitarstjórna. Ég sagði þeim ágætu herramönnum sem á fund minn komu að ég mundi beita mér fyrir því, skoða það mjög vel og ræða við önnur ráðuneyti, að setja upp slíka verkefnisstjórn. Viðfang hennar yrði þó ekki bara þær ágætu hugmyndir sem til mín voru færðar, heldur ekki síst að kanna fjárhagslega stöðu þessara sveitarfélaga, samgöngubætur eins og hv. þingmaður reifaði áðan, og jafnframt ýmsa möguleika, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, á því að sameina sveitarfélög á þessu svæði. Ég held að þau verkefni sem ég var að reifa hér séu ákaflega brýn.

Sömuleiðis ræddum við líka ýmis sértæk úrlausnarefni sem heyra undir ráðuneyti mitt og kannski sérstaklega bak áramótum ef þingið samþykkir að ferðamálin færist til þess. Þeir vaxtarsprotar sem þessir ágætu fulltrúar Austfirðinga ræddu við mig voru ekki síst á sviði ferðaþjónustu og það er ekki úr vegi að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að settir voru töluverðir peningar í þróun ferðaþjónustu á svæðum eins og þessum í mótvægisaðgerðunum. Jafnframt hefur sá byggðaráðherra sem hér stendur mjög hlýjar tilfinningar gagnvart þessum byggðarlögum sem ég vil ekki kalla jaðarbyggðir heldur byggðarlög sem eru afskipt.

Svar mitt til hv. þingmanns er að ég hef hug á að skoða þetta mál mjög rækilega. Ég hef þegar rætt það við þann ráðherra sem væntanlega bak jólum fer með málefni sveitarstjórna en ég verð að viðurkenna það hreinskilnislega að mér hefur ekki enn gefist tími til að ræða það við þriðja ráðuneytið sem ég nefndi. Það er skoðun mín, frú forseti, að miklu skynsamlegra sé að setja upp verkefnisstjórn af þessu tagi með aðkomu þriggja öflugra ráðuneyta en þess ráðuneytis sem Framsóknarflokkurinn hefur heldur háðuglega og stundum í spotttóni talað um sem litla ráðuneytið.