136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

Störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda áfram þar sem ég hætti síðast vegna þess að tími gafst ekki til klára það sem ég vildi sagt hafa í þeirri lotu, en vissulega og með fullri virðingu fyrir umhverfismálum, fyrir umhverfisráðherra og fyrirspyrjanda í dag, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, vildi ég draga fram dagskrána bara til að hnykkja á því að við þingmenn eigum ekki að láta það yfir okkur ganga að við séum ekki að ræða málefnin sem skipta þjóð okkar öllu máli. Við höfum aldrei séð það eins svart og það er kominn tími til að þingið fái þann kraft og þann mátt sem það á að hafa. Ég tek undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan, þingið er máttlaust.