138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

stjórnskipun Íslands.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem mér finnst mjög athyglisverð og ég tel að það ætti að skoða einmitt þessa leið sem hv. þingmaður nefnir hér, kosti hennar og galla. Þessi leið er farin í Svíþjóð að ég held með mjög góðum árangri. Þetta felst fyrst og fremst í því að ríkisstjórnin þar hefur sameiginleg yfirráð yfir stjórnsýslunni og maður getur auðvitað ekki varist þeirri hugsun, eins og mér fannst hv. þingmaður tala um, hvort það sem við lentum í sl. haust hefði farið öðruvísi ef hér hefði verið fjölskipað stjórnvald. Ef þær einstöku ákvarðanir sem hafa verið teknar sem snerta hrunið að mörgu leyti hefðu verið ræddar í ríkisstjórn og teknar þar sameiginlegar ákvarðanir um ýmis brýn viðfangsefni því tengd.

Að vísu erum við að fikra okkur aðeins þessa leið með ráðherranefndum sem fjalla um hin ýmsu mál eins og efnahagsmál. Allir ráðherrar sem koma að þeim málum hittast reglulega og fara yfir stöðu efnahagsmála og einstaka þætti þess. Sama gildir um ríkisfjármálin, jafnréttismál og fleiri þætti þannig að við erum að fikra okkur í átt að fleiri sameiginlegum ákvörðunum í einstaka málum. Ég hef skipað nefnd sem ég bind vonir við og á að endurskoða starfshætti ríkisstjórnarinnar og fyrirkomulag ríkisstjórnarfunda. Ég mun fela henni í tilefni af þessu sem hér hefur komið fram að skoða sérstaklega þá leið sem hv. þingmaður benti á og ég tel allrar athygli verða.