143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:23]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að píratar hafa óskað eftir sérstakri umræðu um stöðu flóttamanna og hælisleitenda. Mér finnst felast mikil ábyrgð í því að tala um hóp án hans eins og við neyðumst í raun til að gera hér í dag. Ef ég fengi að ráða þá mundi ég leggja til með fullri virðingu fyrir okkur hér inni að við, þar á meðal ég, færum öll upp á þingpalla og í okkar stað settust í þingsalinn hælisleitendur og flóttamenn og leiðbeindu okkur um það hvernig best væri að bjóða þá velkomna og skapa þeim aðstæður til að taka þátt í samfélaginu. Ég ræð hins vegar ekki öllu, blessunarlega, en vil þó gera mitt besta til að þeirra rödd heyrist hér í dag.

Rauði þráðurinn í málflutningi hælisleitenda er að biðin eftir úrlausn þeirra mála sé erfið og löng, aðstaðan sé óviðeigandi þegar um svo langan tíma er að ræða, lítið sé við að vera, aðgreining sé umtalsverð og því upplifi þeir oft fordóma sem ýta undir ótta og að flókið sé að verða félagslega virkur vegna hindrana í umhverfinu.

Í því ljósi vil ég benda hæstv. innanríkisráðherra á, sem ég fagna þó mjög að líti þetta mál allt saman alvarlegum augum og vilji gera breytingar á því, að þegar hópur er undirskipaður með þessum hætti er ekki sanngjarnt að segja að mönnum sé frjálst að leita réttar síns eða kæra lögregluaðgerðir þegar þeir hafa jafnvel orðið fyrir miklum áföllum og upplifað sig annars flokks eða eins og dýr eins og margir hafa nefnt hér.

Jafnframt kemur skýrt fram í máli hælisleitenda og flóttamanna viljinn til að aðlagast samfélaginu, en það sé hins vegar flókið þar sem samfélagið sé ekki alltaf tilbúið. Í viðtali við hælisleitandann Osahon Okoro 21. maí 2013 segir, með leyfi forseta:

„Mér er sagt að ég eigi að aðlagast íslensku samfélagi og það vil ég gjarnan. En kerfið virðist mótfallið því. […] Ekki misskilja mig, Ísland er að mörgu leyti gott, en þegar kemur að því að rétta aðkomufólki hjálparhönd þá mættuð þið gera svo miklu, miklu betur.“ (Forseti hringir.)

Þessi orð gefa til kynna mikinn vilja þessa hóps til að aðlagast samfélaginu, uppfylla skyldur sínar og taka ábyrgð. Það þurfum við að gera líka og skapa aðstæður til þess.