154. löggjafarþing — 20. fundur,  25. okt. 2023.

Störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera samgöngumál að umtalsefni og byrja á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Það stendur til á næstu vikum eða mánuðum að bjóða út nýja brú yfir Fossvog. Áætlaður kostnaður er í kringum 8 milljarðar kr. fyrir 260 metra brú sem er byggð sem einhvers konar listaverk. Til samanburðar má nefna að nú í dag er verið að vígja nýja brú yfir Þorskafjörð, sem er um 260 metra löng brú og 2,7 km vegkafli eða vegagerð í kringum það, þ.e. grjótgarðarnir, vegirnir að brúnni og vegagerð þar til viðbótar. Heildarkostnaður við þessa brú og öll þau mannvirki í kringum hana er um 2 milljarðar. Sambærileg brú í Kópavogi eða í Fossvogi 8 milljarðar. Þetta hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um það hvort það er verið að fara allt of dýrar leiðir og þingið hlýtur að þurfa að grípa til ráðstafana þannig að þetta verði skoðað ítarlega.

Ég vil nefna líka Arnarnesveginn sem upphaflega var áætlað, í útreikningum í þeirri áætlun sem þingið fjallaði um í samgöngusáttmálanum, að myndi kosta 2,2 milljarða. Það eru hafnar framkvæmdir á grundvelli tilboðs sem er upp á 7,3 milljarða. Reyndar var hafnað tilboðum frá tveimur meðalstórum verktakafyrirtækjum út af einhverjum reglum Vegagerðarinnar þannig að 1.300 millj. kr. var varpað út um gluggann út af einhverjum reglum Vegagerðarinnar. Það er ekki að mínu mati boðlegt, virðulegi forseti, að við skulum fara svona með skattfé borgaranna. Það vakti líka athygli að í gær lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um ljósastýringarmál í forgang. Því var hafnað af Reykjavíkurborg. Þetta er þó forgangsatriði samgöngusáttmálans þegar þingið afgreiddi hann hér úr þinginu. Svo er þessu hafnað núna af einum aðalaðila samgöngusáttmálans, Reykjavíkurborg.

Ölfusárbrú er annað dæmi, 10 milljarða framkvæmd, hálfgert listaverk. (Forseti hringir.) Af hverju má ekki byggja brú yfir Ölfusá bara svipað og byggð var yfir Borgarfjörðinn? Við þurfum að hugsa þetta, virðulegur forseti, þegar við erum í þeim aðstæðum sem við erum alveg sérstaklega.