145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér finnst sorglegt að hæstv. heilbrigðisráðherra sjái sér ekki fært að vera við þessa umræðu. Ég tel það afar brýnt.

Mér verður aðeins hugsað til síðasta kjörtímabils. Stóð þá nokkurn tíma á því að ráðherrar kæmu þegar þingmenn óskuðu eftir því? Ég man bara ekki eftir að það hafi nokkurn tíma skeð. (Gripið fram í.) Af hverju eru menn svona sporlatir eða hafa svona lítinn áhuga á löggjafarsamkomunni, framkvæmdarvaldið, að þeir sjá sér ekki fært að hliðra til í dagskránni til að vera hér og sýna þinginu þá virðingu að hlusta á þá rökræðu og umræðu sem fer fram um þetta stóra og mikla í raun og veru deilumál þjóðarinnar?

Ef þetta brennur svona á þjóðinni, af hverju eru menn þá ekki hér og fylgjast með umræðunni, menn eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefur lagt fram metnaðarfulla stefnu í áfengis- og vímuvarnaefnum (Forseti hringir.) til ársins 2020? Þetta frumvarp er algjörlega á skjön við það. Hvað veldur?