154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

þjónusta vegna vímuefnavanda.

59. mál
[14:23]
Horfa

Flm. (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda. Stuðningur við tillöguna er þverpólitískur en meðflutningsmenn eru Bryndís Haraldsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson, Berglind Harpa Svavarsdóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Dagbjört Hákonardóttir og Sigmar Guðmundsson. Ég lagði málið fram áður síðustu tvo þingvetur en það kom ekki til umræðu. Mér þykir því gott að vera loksins komin hingað til að mæla fyrir málinu.

Fíknisjúkdómar eru lífshættulegir og ljóst að bið eftir heilbrigðisþjónustu getur verið dauðadómur. Meðan sjúklingarnir bíða eftir að fá viðeigandi þjónustu er gífurlegt álag á aðstandendum þeirra og fjölskyldum með tilheyrandi afleiðingum og kostnaði fyrir samfélagið. Þess vegna leggja flutningsmenn til að hæstv. heilbrigðisráðherra láti greina þá hópa sem ekki fá viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda. Nauðsynlegt er að hópar vímuefnasjúklinga verði skilgreindir svo hægt sé að gera tillögur að úrræðum sem henta hverjum hópi.

Fíknisjúkdómar eru bráðasta hættan sem steðjar að ungu fólki á Íslandi. Árið 2020 létust 20 einstaklingar undir 40 ára aldri af völdum of stórs skammts af fíkniefnum. Metfjöldi andláta vegna lyfjaeitrana varð á árinu 2021 en þá létust m.a. níu einstaklingar undir þrítugu. Í greinargerð með tillögunni er rifjuð upp átakanleg frásögn ungs manns með vímuefnavanda og móður hans. Mæðginin kölluðu eftir fleiri og breyttum meðferðarúrræðum og bentu á að biðlistarnir væru ekkert annað en dauðalistar, sem þeir eru. Ég á síðan sjálf mjög persónulega sögu. Kveikjan að þessu máli mínu og hvatning er ekki síst andlát systur minnar sem lést allt of ung úr fíknisjúkdómi. Hún lést meðan hún var að bíða eftir að komast í meðferð. Þessi tillaga er lögð fram ekki síst í hennar minningu, enda er hún mér hvatning að svo mörgu sem ég geri hér á hv. Alþingi.

Virðulegi forseti. Vinnan sem flutningsmenn leggja til að ráðist sé í færi vel samhliða heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma sem fer nú fram á vegum hæstv. heilbrigðisráðherra. En á meðan starfshópar rýna í tölur og ráðherrar eru að svara fyrirspurnum og við erum að skrifa skýrslur eru biðlistar eftir meðferðarúrræðum vegna vímuefnavanda langir og neyðin er mikil og á þessum biðlistum deyja allt of margir allt of snemma. Maður þarf ekki að gera annað heldur en að fletta minningarsíðunum í Morgunblaðinu til að sjá hvað það er gríðarlega mikil neyð sem blasir við. Það er ljóst að fólki sem glímir við fíknisjúkdóma er ekki tryggð nauðsynleg heilbrigðisþjónusta þegar hundruð sjúklinga bíða eftir viðhlítandi úrræði. Það er í mikilli mótsögn við þá mikilvægu viðhorfsbreytingu sem hefur orðið í samfélaginu í þá átt að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir sem slíkir innan heilbrigðiskerfisins. Það er mat flutningsmanna að það ætti að vera algjört forgangsmál hjá stjórnvöldum að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði, enda eru forvarnir og meðhöndlun fíknisjúkdóma besta leiðin til að draga úr vímuefnavandanum.

Virðulegi forseti. Það er kominn tími á viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavanda.

Að lokum vonast ég til að heyra gagnlegar ábendingar og athugasemdir við málið og ræða það hér við þingmenn. Ég legg til að málið gangi að lokinni fyrri umræðu til hv. velferðarnefndar.