136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:50]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég hef aldrei efast um vilja hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur til að vinna að velferðarmálum. Ég er ekki í vafa um að hún vill gera vel í þeim málaflokki sem og öðrum. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að Samfylkingin og hæstv. félagsmálaráðherra eru í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn sem ekki hefur gefið sig út fyrir að vilja gera breytingar á velferðarkerfinu. Ef eitthvað er hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft það að mottói að halda niðri peningagreiðslum til þeirra mála. Hann lagði mikla áherslu á það á síðasta þingi að leggja niður Íbúðalánasjóð og færa viðskiptin frá honum til viðskiptabankanna sem nú eru komnir á hausinn allir með tölu.

Það er auðvitað hægt að fagna því að verið sé að skoða vexti og verðbætur og frystingu á lánum til þriggja ára hjá fólki sem skuldar mikið. Fyrir þinginu liggur frumvarp frá Frjálslynda flokknum um afnám á stimpilgjöldum og er hægt að taka það upp. Eins er hægt að horfa á með jákvæðum hætti að fresta nauðungarsölu ef greiddur er einn þriðji af vanskilaskuldum. Það er allt af því góða en það kostar peninga og ég óttast að erfitt verði að fá þá peninga frá þessari ríkisstjórn af því að það skortir vilja hjá stórum hluta þeirra sem styðja ríkisstjórnina. 1.850 milljarðar í íbúðalán eru miklir peningar og verður erfitt að færa það yfir til lánasjóðs á næstunni. Það mun taka það langan tíma að sjálfsagt mun þá verða farið að hrikta verulega í stoðunum hjá mörgum. Við settum neyðarlög til að reyna að bjarga bankaviðskiptunum. Við þurfum ekki síður neyðarlög til að hjálpa fjölskyldunum í landinu.