141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[12:26]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara öllum þessum spurningum. Ég talaði um að málið væri framför. Það á ég við vegna þess að málið er þó að þokast áfram þó að það sé hér í einhvers konar ómynd sem ég er ekki sáttur við. Hreyfingin styður ekki ríkisstjórnina, ég er búinn að leiðrétta hv. þingmann hvað það varðar í ótal skipti. Við styðjum hins vegar öll góð mál. Við höfum harðlega gagnrýnt þetta mál á öllum stigum þess og barist mjög fyrir breytingum á því og ég mun ekki samþykkja það í óbreyttri mynd. Ég tel að hljóðritunarákvæðið eigi að halda áfram að vera þarna inni. Þau má þá varðveita á Þjóðskjalasafni í 30 ár, þau eru líka heimild sem hægt er að hverfa til síðar, sem er enn nákvæmari heimild en vel ritaðar fundargerðir.

Þetta undanþáguákvæði — ég átta mig ekki almennilega á því og hefði kannski betur spurt hv. formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að því áðan, en það verður kannski bara skýrt frekar í meðferð nefndarinnar þegar þar að kemur.