149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[16:05]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir aðkallandi spurningar. Spurt er í þremur liðum og í þriðja lið er spurt: Þarf að setja erlendum fjárfestum reglur um kaup á landi og landgæðum?

Herra forseti. Ég tel að svara þurfi lið 3 sem allra fyrst. Málið er aðkallandi enda land takmörkuð auðlind. Um leið og land þarf að geta gengið kaupum og sölum og eigendur lands, samanber bændur þessa lands, þurfa að geta fengið eðlilegt verð fyrir sínar jarðir þarf að tryggja að fjársterkir aðilar geti ekki sölsað undir sig heilu sveitirnar með veiðiréttindum, vatnsréttindum o.s.frv., og á stundum með alvarlegum afleiðingum fyrir samfélögin í sveitum landsins, tjóni fyrir félagslíf og skólastarf.

Einnig má spyrja: Er það vilji íslensku þjóðarinnar að auðmenn, hvers lenskir, sölsi undir sig náttúruauðlindir þjóðarinnar?

Horft til langrar framtíðar er ekki nokkur vafi í mínum huga að land verður stöðugt meira virði. Ætlum við Íslendingar að selja landið undan afkomendum okkar?

Herra forseti. Bregðumst við áður en það verður illmögulegt. Pössum að við verðum ekki landlaus þjóð.