154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

Málefni aldraðra.

[13:22]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Heilbrigðismál eru svo samofin lífsgæðum eldra fólks að ég vil víkja nokkrum orðum að heilbrigðismálum hér í þessari umræðu og að áherslum Viðreisnar í því samhengi. Viðreisn vill standast norrænan samanburð um sterkt opinbert heilbrigðiskerfi og ég nefni þetta í samhengi við að hlutfall aldraðra fer hratt hækkandi á Íslandi. Þjóðin er með öðrum orðum að eldast hratt og það er áhyggjuefni að það vantar töluvert upp á það að aðgerðir stjórnvalda og fjármögnun gangi hönd í hönd um að vera tilbúin til að mæta þessari þróun. Landspítalinn er ekki hugsaður til að vera hjúkrunarheimili og okkar elsta kynslóð á betra skilið en að staða hjúkrunarrýma sé sú sem hún er. Tillaga Viðreisnar um uppbyggingu er að gera samninga við þjónustuaðila og fjármagna þannig uppbyggingu hjúkrunarheimilanna og ríkið kaupi þá með lengri samningum þjónustu við og fyrir eldri borgara.

Kjör en líka lífsgæði eru viðfangsefnið hér í dag og ég vil aftur hér í þessum stól rifja upp sögu sem kona sagði mér nýlega af mömmu sinni sem ekki kemst inn á hjúkrunarheimili þrátt fyrir að þurfa þess mjög nauðsynlega og vilja það. Í staðinn er hún lögð inn á Landspítala og svo send heim um leið og færi gefst. Þetta gerist aftur og aftur og auðvitað framkallar þetta kvíða og vanlíðan hjá móðurinni á sama tíma og dóttirin er úrvinda af þreytu, sjálf í fullri vinnu og með heimili og börn. Það er í raun dóttirin sem veitir móður sinni þá aðstoð og þá heilbrigðisþjónustu sem íslenska heilbrigðiskerfið gerir ekki. Það ótrúlega við þessa vondu stöðu er að þessi skortur á þjónustu kostar ríkið meira en dvöl á hjúkrunarheimili myndi gera. Vandinn vegna hjúkrunarheimila aldraðra er orðinn að bráðavanda alls heilbrigðiskerfisins. Inni á sjúkrastofnunum liggja í dag um 800 aldraðir sem þurfa á heimahjúkrun að halda eða þjónustu á hjúkrunarheimili og þetta þarf auðvitað ekki að vera svona.