139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

mál á dagskrá.

[16:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af umræðunni um fundarstjórn forseta ætlum við að fara í fyrirspurnir. Á föstudaginn í umræðu um störf þingsins ræddi ég áhyggjur mínar af löngum biðröðum eftir matargjöfum. Ég benti á að formaður velferðarvaktarinnar hefur kallað eftir neyslustaðli. Því gladdist ég mjög þegar ég sá að það væri hugsanlegt að fyrirspurn mín um neyslustaðal kæmist á dagskrá í dag.

Svo sé ég hérna á blaði að þó að forsætisráðherra sé mætt í þingið virðist hún ekki vera tilbúin að svara fyrirspurninni um neysluviðmiðið sem er samt sem áður eitthvað sem hún hefur sjálf barist fyrir í um níu ár. Ég hef áhuga á að vita hver ástæðan sé fyrir því að þessi fyrirspurn er ekki á dagskrá en fyrirspurn um reglugerð um gjafsókn, sem er mikilvæg líka en er að mig minnir með hærra þingskjalsnúmer, er komin á dagskrá. Ég held að það sé mikilvægt að fá upplýsingar um það hvað forsætisráðherra hyggst gera varðandi neysluviðmiðin.