149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni ræðuna. Hann vísað sérstaklega til, að því er ég tel, nefndar Þráins Eggertssonar og Friðriks Más Baldurssonar frá 2015 sem skilaði af sér frumvarpi til breytinga á lögum um Seðlabankann. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega hvort ég gæti skýrt hvað færi saman og hvað væri ekki sambærilegt milli þessara skýrslna. Það er ekki gert í skýrslu starfshópsins, eins og hv. þingmaður bendir á. Ég hefði talið vænlegt að efnahags- og viðskiptanefnd færi yfir það, en auðvitað er ákveðinn samhljómur á milli sumra tillagna frá 2015 og þessarar nýju skýrslu, þá sérstaklega aukið hlutverk Seðlabanka hvað varðar fjármálastöðugleika. Þar er líka talað um fjölgun aðstoðarseðlabankastjóra, að þeir verði tveir en ekki einn, en það er ekki eyrnamerkt með sama hætti og gert er í tillögum þessa starfshóps og ekki kveðið sérstaklega á um fjölskipun.

Ein mínúta er ekki nóg til að fara yfir muninn á þessum skýrslum, en ég teldi eðlilegt í ljósi orða hv. þingmanns að þetta væri skoðað sérstaklega í umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar um skýrsluna.