153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[17:03]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekkert á móti því að hingað komi flóttamenn frá Venesúela, ekki neitt, svo að það liggi algjörlega fyrir. Ég hef fylgst með sorgarsögunni sem er þar. Venesúela á mun meiri olíulindir en Sádi-Arabía og þetta eru bestu gæði í heimi í olíunni. Þetta er ríkasta ríki Suður-Ameríku raunverulega (Gripið fram í.) Já, samt er fólk á flótta og við eigum að taka á móti þeim sem falla undir skilgreininguna á flóttamanni í lögunum, þ.e. sem eru að flýja land sitt vegna ástæðuríks ótta, út af stjórnmálaskoðunum o.s.frv. Það er það sem við eigum að gera. (Gripið fram í: Það er vargöld.)Já, það er vargöld þar, við getum kallað það vargöld, það er ekki málið. Ég tel hins vegar að ef það kæmu allt í einu þúsundir manna til Íslands og myndu falla undir skilgreininguna flóttamenn yrðum við að segja að stopp á einhverjum tímapunkti. Það er alveg kristaltært í mínum huga. Við getum ekki tekið á móti og haft hérna eins og sum ríki — t.d. er Tyrkland með milljónir í flóttamannabúðum og það er 84, 85 milljóna samfélag. Við erum 370.000 manns, eitt ríkasta samfélag heims. Við eigum að uppfylla okkar (Forseti hringir.) alþjóðlegu skuldbindingar í samræmi við getu okkar og burði, ekki meira (Forseti hringir.) og ekki minna. Það er grundvallaratriði.