153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[23:10]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég fagna því í sjálfu sér að helst sé horft til Noregs frekar en til að mynda Danmerkur. Ef ég man rétt, eru ekki Danir að fá sambærilegt af umsóknum til sín og við Íslendingar erum að fá? Það hefur eitthvað með framkvæmdina hjá Dönum að gera og afstöðu þeirra til þessara mála, hlýtur að vera, og mér finnst það ekki til eftirbreytni. Mér finnst að við eigum að nálgast málin þannig að við eigum svolítið að teygja okkur til fólks og segja: Hingað eruð þið velkomin að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þið eruð ekki baggi á samfélaginu. Við sjáum að þið getið komið hingað og tekið þátt í samfélaginu, við ætlum að hjálpa ykkur að komast út í samfélagið og þið verðið fullir þátttakendur og búið til einhver verðmæti. En hér var verið að tala um atvinnuþátttöku og það væri mögulega hægt að taka eitthvert álag af hælisleitendakerfinu með því að auka möguleika fólks utan EES til að koma hingað til vinnu. Nú er þetta auðvitað mest fólk frá Úkraínu, Venesúela, Sýrlandi, Palestínu og Afganistan (Forseti hringir.) og þessum löndum þaðan sem margir flóttamenn koma. Eru líkur á að þetta myndi létta einhverju af hælisleitendakerfinu, jafnvel þótt sú glufa myndi opnast betur? Menn hafa talað um að fara í þá vinnu sem ég styð auðvitað heils hugar.