143. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2013.

aðgerðir til að draga úr reglubyrði atvinnulífsins og efla samkeppni.

158. mál
[14:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir alveg ágætisframtak. Þannig er að skrifræði og skriffinnska getur valdið stöðnun og jafnvel rústað heilu ríkin og ég nefni þar Sovétríkin gömlu. Ég nefni ástandið núna eftir fellibylinn á Filippseyjum sem skrifræði er að einhverju leyti kennt um. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að menn komi með svona reglusetningu en ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki ástæða til að taka sveitarfélög inn sérstaklega og ekki einungis fyrirtæki heldur líka heimili, hvernig regluverkið virkar á heimilin þar sem menn geta ekki beðið ættingja og vini að hjálpa sér við garðinn sinn án þess að lenda í óskaplegum vandræðum? Þetta er líka spurning.

Þessu tengt er kostnaðarmat. Með frumvarpinu fylgir kostnaðarmat gagnvart ríkinu en ekki gagnvart sveitarfélögum og ekki gagnvart heimilum og ekki gagnvart fyrirtækjum. Er ekki eðlilegt að það fylgist að? Og ekki bara kostnaðarmat heldur líka hagnaðarmat?