153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[18:18]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get verið sammála um að það skiptir máli hvernig er talað. Ég held þess vegna að við þurfum að fara mjög gætilega í það hvernig við tölum en bara vísa til að mynda í fund sem við áttum með ríkislögreglustjóra um það í hvaða hættu þetta fólk er. Þetta frumvarp er svo sem ekki að taka á því. Þetta frumvarp er engin umbylting á hlutunum. Þetta frumvarp er að taka á ákveðnum þáttum sem bent hefur verið á og verið gerðar margar tilraunir til að koma í gegnum þingið. En ég get ekki séð hvar þetta er að taka svona mikið á réttindum eins og hv. þingmaður kemur inn á, herða skrúfurnar. Hv. þingmaður man örugglega jafn vel og ég eftir því hvernig bæði Noregur og Danmörk töluðu um endursendingarstefnuna sína og hversu mikilvægur hluti það var, þannig að næsta spurning, og nú þarf hv. þingmaður að hafa sig allan við til að ná að svara því líka, alveg eins og ég spyr hvort við eigum að veita öllum vernd sem þegar hafa fengið vernd í Grikklandi og Ítalíu: Telur hv. þingmaður eðlilegt að fólk sem hefur farið í gegnum ferlið okkar, fengið synjun vegna þess að það uppfyllir ekki skilyrði laganna um að fá vernd, kært til Útlendingastofnunar, fengið líka synjað á þeim forsendum, (Forseti hringir.) geti samt sem áður verið hér áfram óhikað á kostnað almennings?