153. löggjafarþing — 22. fundur,  25. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[21:16]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er auðvitað margt til í þessum orðum sem hv. þm Jódís Skúladóttir nefnir hér, um að þinglega meðferðin sé auðvitað til þess að skoða málin ofan í kjölinn. Þetta frumvarp sem hér er lagt fram hefur ekki breyst neitt rosalega mikið frá síðasta vetri. Það liggja fyrir, frá síðasta vetri, ansi margar umsagnir um málið eins og það var þá lagt fram. Ég leyfi mér að fullyrða að þær séu nánast allar algjör falleinkunn á málinu. Alls staðar verið að tiltaka að það er verið að draga úr réttindum og vernd þessa viðkvæma hóps sem við þó þykjumst vera að slá skjaldborg um með þessari löggjöf. Í ljósi aðdragandans held ég að það sé ekki ósanngjörn spurning að kalla eftir því hvort það sé raunverulega þannig að það sé meiri hluti fyrir þessu máli innan ríkisstjórnarinnar, hvort þingflokkar Framsóknarflokksins og VG styðji þetta mál í raun og veru eins og það er að koma fram eða hvort mönnum líði bara ágætlega með að dugleg stjórnarandstaða kæfi það og tefji þannig að það falli niður dautt, eins og gerðist síðasta vetur.