136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gjarnan ræða þetta í góðu tómi við hv. þm. Guðbjart Hannesson. Hann kvartar undan því að hafa ekki séð nein skjöl um að það hafi kostað hvert einasta mannsbarn á landinu 625 þús. kr., ekki 620 þús. kr., að greiða 75–85%, það var nokkuð misjafnt eftir bönkum, af peningamarkaðssjóðunum sem vitað er að voru kannski svona 60–70% tómir, ef ekki meira í sumum tilfellum. Það þarf engan sérfræðing til þess að deila 200 milljörðum kr. með íbúafjölda landsins og fá þessa tölu út. (Gripið fram í.) Ja, hver skyldi hafa gert það, hv. þm. Árni Páll Árnason, sem hér kallar fram í? Það er spurningin, það er bara eitt af því sem þarf að fást upp á borðið, það er eitt af því sem þarf að rannsaka við þessi mál öll. (Gripið fram í.) Ég frábið mér frekari frammíköll á þessum stutta tíma. Hv. þingmaður hefur þegar farið í andsvar við mig og ég bið hann að fara þá aftur hér í ræðustól en eyða ekki mínum tíma.

Ég ætlaði að reyna að svara því (Gripið fram í.) sem snýr að Fjármálaeftirlitinu og ég nefndi. Ég veit ekki betur en að — og það hlýtur hv. þingmanni líka að vera ljóst sem og landslýð — stjórnvöld, þar með Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, hafi fengið erlenda sérfræðinga til þess að gera úttekt á stöðu þessara reikninga síðasta vor. Skrifuð var löng og mikil skýrsla um það. Henni var stungið undir stól (Gripið fram í.) og það hefur verið gagnrýnt harðlega. Hvað segir nú hæstv. iðnaðarráðherra? (Gripið fram í.) Hollensku innlánsreikningarnir byrjuðu 2006? (Gripið fram í: Þá var gefið leyfi fyrir þeim.) Já, þá hef ég haft um það rangar upplýsingar vegna þess að það hefur verið fullyrt (Forseti hringir.) við mig að það hafi verið töluvert eftir að bresku reikningarnir hafi vaxið okkur yfir höfuð. Ég fæ kannski að svara þessu betur hér á eftir. (Gripið fram í.)