138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Víst er að málefnið er gott, þ.e. Ferðasjóður ÍSÍ, sem ég veit að hefur gefist feikilega vel og mikil ánægja er með um land allt. Hins vegar er hin efnahagslega staða sú að okkur er skorinn þröngur rammi. Skólamál mæta almennt 7% niðurskurði en menningarmál, og þar með talið íþróttamál, 10% niðurskurði almennt. Þegar kom að því að hagræða var okkur því allnokkur vandi á höndum en gert er ráð fyrir því að lækka framlögin núna um 3 millj. kr. eða um 5% sem er minni niðurskurður en gengur og gerist í íþróttageiranum. Má því segja að við höfum ákveðna forgangsröðun og reynum að halda þessu verkefni uppi. Þetta er einnig talsvert minni lækkun en sjóðir almennt á vegum ráðuneytisins fá í frumvarpinu.

Eins og ég nefndi hefur sjóðurinn gefið góða raun. Það hefur verið mikil ánægja með hann um land allt. Því lengra í burtu sem maður kemur frá höfuðborgarsvæðinu — meðal fjölskyldna sem eru að tryggja áframhaldandi þátttöku barna sinna í íþróttastarfi — er ánægjan mikil þannig að við lögðum áherslu á að halda þessu framlagi inni í frumvarpinu svo að hægt verði að endurnýja samninginn við ÍSÍ um sjóðinn en hann rennur út í árslok 2009.

Saga sjóðsins er sú að í kjölfar þingsályktunartillögu, sem samþykkt var 3. júní 2006, skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nefnd sem falið var að gera úttekt á ferðakostnaði íþróttafélaga vegna þátttöku í viðurkenndum mótum. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til að komið yrði á fót ferðasjóði íþróttafélaga til að jafna landfræðilegan aðstöðumun og efla íþrótta- og forvarnastarf. Jafnframt var lagt til að gerður yrði þjónustusamningur við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands um umsjón og umsýslu sjóðsins. Í framhaldi af tillögu nefndarinnar ákvað ríkisstjórnin að stefnt yrði að því að framlag til sjóðsins yrði 90 millj. kr. á ársgrundvelli og að því marki yrði náð á þremur árum, það var réttilega vitnað í það hjá hv. þingmanni. Samningurinn við ÍSÍ er til þriggja ára þar sem kom fram að framlagið yrði 30 millj. kr. árið 2007, 60 millj. kr. árið 2008 og 90 millj. kr. árið 2009.

Þegar efnahagshrunið varð í fyrra var, í 2. umr. um frumvarp til fjárlaga 2009, gerð tillaga um að fresta 30 millj. kr. hækkun á framlagi til Ferðasjóðs Íþróttasambands Íslands. Í fjárlögum 2009 var framlag til sjóðsins því 60 millj. kr. en ekki 90 eins og gert hafði verið ráð fyrir. Þó að þessi samningur renni út í árslok 2009 er lagt til í frumvarpi til fjárlaga, eins og ég nefndi áðan, að framlag til sjóðsins verði 57 millj. kr. þannig að hægt er að veita þær 30 millj. kr. sem frestað var og endurnýja samninginn með lægri fjárhæðum. Vilji stendur því til að halda þessu áfram, þetta verkefni hefur gefið feikilega góða raun og við viljum stuðla að áframhaldi þess þó það verði hugsanlega að vera með lægri fjárhæðum á meðan við göngum í gegnum þessa efnahagslægð.