140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þingsköp Alþingis.

27. mál
[18:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu. Þó að 1. flutningsmaður málsins hafi áðan sagt að andsvör væru af hinu illa finnst mér þau góður kostur vegna þess að andsvör kalla fram svör. Það er það sem vantar iðulega í umræðu á Alþingi, sérstaklega frá ráðherrum, sem ég kvartaði undan áðan.

Segjum að þetta verði samþykkt, því að menn leggja væntanlega fram frumvarp til að það verði samþykkt, þá spyr ég hv. þingmann: Hvar er neyðarhemillinn? Hann er ekki kominn (Gripið fram í.) og þá er ekkert sem tryggir að ríkisvaldið geti ekki farið enn þá hraðar yfir Alþingi og valtað yfir það. Til að mál séu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf stjórnarskrárbreytingu þannig að þjóðaratkvæðagreiðslan sé bindandi. Það er ekki enn komið. Mér finnst þetta mál vera dálítið á undan sér og ef það yrði samþykkt valtar ríkisstjórnin bara yfir þingið, alveg sérstaklega í stjórnarskrármálum. Þá yrði svona neyðarhemill aldrei byggður inn. Eftir að við samþykktum lög um Stjórnarráðið, sem ég las í hörgul og varð skelfingu lostinn — ég skora á hv. þingmenn sem eru búnir að samþykkja þetta, meiri hlutinn, að lesa það frumvarp í hörgul og sjá hvernig það gæti virkað í höndum manns sem vildi virkilega beita valdi sínu.