153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

framsetning fjárlaga.

[15:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get einfaldlega sagt að ég virði alveg þetta sjónarmið. Ég held reyndar, ef við ræðum sérstaklega um sálfræðiþjónustuna, að þá sé aðalvandinn þar sá að okkur vantar sálfræðinga. Við höfum t.d. séð varðandi sérstaka fjármögnun sem tryggð var fyrir heilsugæsluna til að efla sálfræðiaðstoð í heimsfaraldri kórónuveirunnar að þeir fjármunir hafa ekki gengið út. Ég held að það sé aðallega vegna þess að það hafi ekki fengist sálfræðingar til að sinna þjónustunni. En þetta er alveg sjónarmið að ráðherrar leggi fyrir heildarfjármögnunina. En svo er þetta nú alltaf þannig að við þurfum að taka ákvörðun um hvaða heildarumfang í fjárlagafrumvarpinu við ætlum að hafa. Það þýðir að það þarf að forgangsraða og það getur verið sárt að gera það og það kemur með ólíkum hætti niður á einstaka ráðuneytum en það þýðir að við verðum að horfast í augu við að peningar eru af skornum skammti, þeim verður að forgangsraða (Forseti hringir.) og það getur þýtt að þingið þarf að taka afstöðu á endanum til þess hvernig eigi að fara með svona ákvæði sem gerð eru með fyrirvara.