Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að ég stóð með stjórnarmeirihlutanum á þessum tíma og kom inn sem nýr þingmaður 2003. En ekkert af því breytir í sjálfu sér þeirri staðreynd að það þarf að taka á þessu máli og við erum að ræða um það hér með hvaða hætti við ætlum að spila úr ríkisábyrgðinni og það er minn málstaður í þessari umræðu að við eigum að láta skilmála ábyrgðarinnar gilda. Við gætum tekið mörg dæmi en ég leyfi mér að nefna Icesave-málið fræga. Mörgum fannst á sínum tíma að vegna þess að við hefðum klúðrað öllu svo mikið að þá gætum við bara samþykkt nánast hvað sem er, við hefðum einhvers konar siðferðilega skyldu til þess eða eitthvað slíkt. Það átti ekki við að mínu áliti og það á heldur ekki við núna. Við þurfum bara einfaldlega að taka afstöðu til þess hvenær við ætlum að axla ábyrgð á málinu sem Alþingi, (Forseti hringir.) með hvaða hætti, og lærdómurinn af þessu er auðvitað löngu kominn fram. Þarna var tekin óásættanleg áhætta.