Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[16:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einfaldlega misskilningur hjá hv. þingmanni. (ÞorbG: Alls ekki.) Það eru ekki aðstæðurnar sem er verið að líkja þessari stöðu við, það er verið að meta inngrip inn í fjármálagerninga, hvers konar inngrip í fjármálagerninga geta staðist til að mynda ákvæði stjórnarskrár. (ÞorbG: Og við hvaða aðstæður.)Aðstæðurnar eru ekki aðalatriðið í því efni heldur ýmis atriði sem rakin eru í lögfræðiálitinu, m.a. um það hvort verið er að valda miklu tjóni. Í lögfræðiálitinu er það rakið að í því tilviki urðu þeir sem voru skertir með því að vera settir fyrir aftan innstæðueigendur fyrir talsvert miklu tjóni. En í þessu tilviki erum við að tala um fullar efndir höfuðstóls og áfallinna vaxta. Óvissan um tjónið fer eftir aðstæðum hvers og eins og því hvernig honum mun farnast á næstu 22 árum að ávaxta það sem hann fær í hendurnar við uppgjörið til móts við (Forseti hringir.) það að hafa tapað verðtryggðum vöxtum samkvæmt HFF-bréfunum.