Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Eftir lokun markaða á fimmtudag hélt hæstv. fjármálaráðherra blaðamannafund þar sem hann kynnti að Íbúðalánasjóður færi að óbreyttu í þrot eftir 12 ár og þá myndi reyna á ríkisábyrgð. Samkvæmt þessari sviðsmynd liggur líka fyrir að á næstu 12 árum á sjóðurinn fyrir skuldbindingum sínum. Á sama fundi kynnti fjármálaráðherra þrjá valkosti; að ríkið standi við skuldbindingar sínar, að eigendur bréfanna gangi til samninga við ríkið eða að sjóðurinn verði settur í þrot með lagasetningu. Hann gaf skýrt til kynna að fyrsta leiðin yrði ekki farin. Þess í stað boðaði hann svokallaða sparnaðartillögu sem myndi fela í sér að ríkissjóður fái á sig 47 milljarða högg strax á næsta ári og sú tala gæti reyndar orðið hærri. Hvar liggur þá eiginlega þessi sparnaður? Jú, hann liggur í því að aðrir eiga að taka reikninginn, að lífeyrissjóðirnir gefi eftir fjárhæðir og taki skuldbindingar í fangið.

Hér þarf að halda því mjög rækilega til haga hverjir lífeyrissjóðirnir eru og hverjir þessir kröfuhafar eru. Það er almenningur í landinu. Þar er sparnaður almennings í landinu, ekki síst eldri borgara. Eiga eldri borgarar að taka höggið á sig? Eigendur bréfanna eru líka sum almannaheillafélög sem byggja rekstrargrundvöll sinn á öruggum fjárfestingum með ríkisábyrgð, góðgerðarfélög öðru nafni. Eiga góðgerðarfélögin að taka reikninginn á sig? Ég ætla að leyfa mér að nefna dæmi sem birtist á Facebook í dag þar sem Sigrún Jónsdóttir segir sína sögu. Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Ég sat í sjö ár í stjórn Styrktarsjóðs hjartveikra barna og sá þar um fjárfestingar og útgreiðslu styrkja til barna með alvarlega hjartagalla. HFF-bréfin eru undirstaða reksturs styrktarsjóðsins. Fjárfesting í þeim tryggði stöðugleikann sem skapaði síðar möguleikann á vexti sjóðsins eftir hrun. Vaxtagreiðslur og afborganir af þeim gera sjóðnum kleift að greiða út styrki sjóðsins. Ef verður af hótunum fjármálaráðherra er forsendum kippt undan sjóðnum.“

Þetta er það fólk sem á að taka reikninginn og auðvitað er það þannig að það er ekki bara hægt að töfra burtu tap. Það þarf fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins til að tala þannig og það þarf fjármálaskilning Sjálfstæðisflokksins til að trúa svoleiðis bulli. Nú stendur stríðið um það hver á að taka á sig tapið og komi þetta mál til kasta Alþingis í formi frumvarps er stóra réttlætis- og sanngirnisspurningin: Hvernig er sanngjarnt og eðlilegt að deila þessu tjóni? Því höggið verður alltaf hjá almenningi en útfærslurnar á því hvernig þetta tjón verður greitt eru ólíkar. Hvernig er réttlátast að kostnaðinum við þetta klúður verði dreift? Það er lykilspurningin.

Það er auðvitað alveg rétt að það verður að grípa inn í stöðu þar sem tap getur verið 18 milljarðar á ári. Svoleiðis staða má ekki viðgangast lengi án stjórnvalda en það hefur hún hins vegar fengið að gera. Fjármálaráðherra hefur setið frá árinu 2013 og á meðan hefur vandinn vaxið og vaxið. Athafnaleysi fjármálaráðherra í tíu ár hefur valdið almenningi í landinu miklu tjóni og það skilur eftir sig spurningar um ábyrgð. Fjármálaráðherra fer með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála og fjármálaráðherra heldur á ríkisábyrgðum.

Ég hef áður nefnt að fyrir lá skýrsla strax árið 2013 um framtíðarhorfur þessa sjóðs og um mikla rekstrarerfiðleika. Fjármálaráðherra hefur lýst því í fjölmiðlum að hann hafi verið að skoða þessi mál frá 2019. Þegar fyrir liggur að tapið er í milljörðum talið ár hvert verður að ræða hvers vegna fjármálaráðherra hefur ekki brugðist við fyrr. Þetta aðgerðaleysi er öllum almenningi í landinu dýrkeypt og allt tal um það af hálfu fjármálaráðherra að verkefnið hafi ekki verið á hans borði er annaðhvort á misskilningi byggt eða til að slá ryki í augu fólks. Fjármálaráðherra er, eins og ég sagði áðan, æðsti yfirmaður opinberra fjármála í landinu, fer með yfirstjórn þeirra og heldur á ríkisábyrgðum.

Þó að ég sé sammála því að það þurfi að taka á vandanum og að það hefði átt að gera það fyrr þá er ekki sama hvernig það er gert, með hvaða hætti við nálgumst viðfangsefnið og við heyrum gagnrýni á það hvernig ráðherra stóð að málum og gagnrýni á tímasetningu; tveir þættir sem hafa framkallað titring en ekki bara titring heldur tjón á fjármálamörkuðum. Þegar Kauphöll Íslands opnaði fyrir viðskipti með skuldabréf á mánudag blasti við ófögur sjón og það þarf ekki mikla kenningasmiði til að sjá og skilja að ótímabærar og glannalegar yfirlýsingar fjármálaráðherra á blaðamannafundinum höfðu þessi áhrif, bein afleiðing yfirlýsingar hans. Morgunblaðið, sjálft Morgunblaðið, segir þannig frá að viðskiptin á föstudag sýni að gera megi ráð fyrir því að a.m.k. 100 milljarðar hafi þurrkast upp af eignum kröfuhafa, 100 milljarðar. Ég spyr: Lá fyrir eitthvert mat innan fjármálaráðuneytisins á hugsanlegum viðbrögðum markaðarins við þessum glannalegu yfirlýsingum? Lá fyrir eitthvert mat um það hvort þessi aðgerð myndi hafa áhrif á lánshæfismat ríkisins? Hagsmunirnir sem hér eru undir nema hundruðum milljarða. Undirliggjandi staða er alvarleg, hagsmunirnir eru miklir og augljóst að hér þarf að vanda til verka og það þarf að gæta sín. En það þarf líka að gæta hagsmuna almennings.

En fjármálaráðherra hellti olíu á eldinn með því að viðra hótanir sínar um aðgerðir gegn lífeyrissjóðunum með orðum um að ábyrgð íslenska ríkisins sé nú ekkert sérstök. Við höfum, og ég hef nefnt þetta áður, nýlega séð ýkt dæmi frá Bretlandi um það hvaða áhrif yfirlýsingar ráðamanna geta haft á efnahag ríkis, þannig að það má spyrja sig að því hvort fjármálaráðherra Íslands hafi á þessum blaðamannafundi verið að leita í smiðju breska íhaldsflokksins um aðferðir. Afleiðingarnar hjá okkur af þessum fundi urðu m.a. þessi mikli titringur á fjármálamarkaði, að ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hækkaði strax. Vaxtakostnaður ríkisins getur í framhaldinu aukist töluvert, ekki bara út af því fjártjóni sem er í kortunum heldur líka vegna orða og yfirlýsinga fjármálaráðherra. Það mun kosta meira fyrir ríkissjóð að skulda. Svo má velta því fyrir sér, eins og ég nefndi áðan, hvað verður um lánshæfismat ríkisins. Það er lykilpunktur sem ekki hefur fengið næga athygli.

Ríkissjóður er eitt en hvað gera undirstofnanir ríkisins næst þegar þær gefa út sín ríkistryggðu bréf? Hvað gerist t.d. hjá Landsvirkjun þegar hún þarf að ráðast í fjárfestingar vegna uppbyggingar á raforkunetinu okkar? Þetta traust sem er undirliggjandi og grundvallarbreyta í þessu máli snýr að öllum stofnunum ríkisins. Við heyrum orð frá fjármálamarkaði sem enginn fjármálaráðherra vill heyra, um að hótun hans um að keyra sjóðinn í þrot hafi rýrt bæði traust og trúverðugleika ríkissjóðs til lengri tíma vegna orða formanns Sjálfstæðisflokksins sem talar jafnan um ábyrga hagstjórn og virðingu fyrir eignarrétti. Þetta er stórskaði.

Forseti. Svona er staðan í dag þegar fjármálaráðherra er hingað kominn á Alþingi til að ræða stöðu mála. Ég hef engar skýringar heyrt á því hvers vegna ekki var hægt að hefja samtal við kröfuhafa, við lífeyrissjóðina án þess að blása fyrst í herlúðra, án þess að beita fyrst hótunum, því þessar væntanlegu viðræður fara núna fram í skugga hótunar um lagasetningu. Ef sjóðirnir semja ekki eins og fjármálaráðherra vill verða sett lög eins og fjármálaráðherra vill.

Ég heyri að hér hefur verið töluvert rætt um fortíðina og hún er ástæða þess að við erum að ræða þetta mál hér í dag. Mistökin sem eru rót hins ævintýralega fjártjóns Íbúðalánasjóðs eru eitt og þau eru rækilega útlistuð og staðfest í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar þar um. Þar held ég að megi segja að tveir flokkar eigi þetta klúður skuldlaust, ef hægt er að nota orðið skuldlaust í þessu samhengi, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Þessir tveir flokkar teiknuðu upp þessa mynd og það er kannski í sjálfu sér passandi að þeir hafi nú með höndum það verkefni að leysa úr stöðunni.

Ég myndi vilja spyrja þingmenn Framsóknarflokksins, sem taka nú reyndar sjaldnast þátt í umræðunni um stóru málin hér í þessum sal, hvort þau styðji það að fara svona inn í sparnað almennings, eldri borgara, almannaheillafélaga t.d. Eða er það leið sem Vinstri græn styðja og samþykkja? Því það er það sem er verið að gera. Þess vegna var þessi upphaflega framsetning fjármálaráðherra, um „sparnað“ fyrir ríkissjóð, með nokkrum ólíkindum og það var þessi ótrúlega framsetning hans, sem er ónákvæm, væri snyrtilega orðað, en kannski líka bara óheiðarleg, sem gerði það að verkum að ég hóf umræðu um þetta mál.

Frú forseti. Staðan er einfaldlega sú að allir kostir í stöðunni eru slæmir. Allir kostir í stöðunni verða dýrir fyrir almenning í landinu, hvort sem þetta tap og tjón fer í gegnum ríkissjóð eða í gegnum lífeyrissjóðina þar sem sparnaður almennings liggur. Mögulega leiðir þetta til þess að skerða þurfi lífeyrisgreiðslur. Lagasetning fyrir áramót mun leiða til 47 milljarða kr. höggs á ríkissjóð á næsta ári, fjártjón sem setur alla fjárlagavinnu núna í uppnám. Þá er ótalið 150 milljarða kr. tap að núvirði fyrir eigendur bréfanna. Í því sambandi er áhugaverð spurning að velta því upp hver merking ríkisábyrgðar er í augum hæstv. fjármálaráðherra, sem er formaður flokks sem hefur varið miklu púðri í að telja fólki trú um að hann standi vörð um eignarréttinn og flokkar sig sem mann ábyrgrar hagstjórnar.

Fjármálaráðherra hefur talað um að staðan verði að byggjast á lagalegri stöðu. Ég er honum einlæglega sammála um það. En um lagalegu stöðuna, um réttarstöðuna, er mikil óvissa. Hver er t.d. staða þeirra sem setjast við samningaborð með fjármálaráðherra þegar þeirra bíður lagasetning, náist samningar ekki? Hvað heitir sú samningatækni annað en hótun? Við hvaða aðstæður eru menn að semja þá? Hverjar eru heimildir ráðherra og þings til að fara með sjóð í þrot sem á fyrir skuldbindingum sínum í meira en áratug til viðbótar, heimildir ráðherra og þings til að knýja á um gjaldþrotaskipti við þær aðstæður? Hver eru réttindi kröfuhafa varðandi það að fara inn í stöðuna og inn í réttindin afturvirkt?

Fjármálaráðherra hefur látið vinna lögfræðiálit en hún vekur athygli mína áherslan sem lögð er á að þessar aðferðir standist vegna þess að þetta hafi verið gert með neyðarlögum í hruninu. Ef fjármálaráðherra tekur undir að viðlíka aðstæður séu nú uppi á Íslandi þá ætla ég að leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði fyrr í dag í andsvörum við fjármálaráðherra: Þá eru það sennilega stærstu fréttirnar í dag. Ef það er mat ráðherrans að svo sé þá hlýtur að vakna sú spurning hvort fjármálaráðherra þurfi þá ekki að gera þingi og þjóð grein fyrir þeirri stöðu.

Staðan er auðvitað ekki hin sama og þá. Hagsmunir almennings eru heldur ekki hinir sömu þegar horft er til þess hver væntanleg útgjöld ríkisins yrðu. Hér væri sennilega um sértæka aðgerð að ræða því lagasetningin snýst um einn tiltekinn sjóð, hér hefur ekki orðið neitt kerfislægt hrun. Ég myndi nefna sjónarmið og spurningar um meðalhóf, hvort ekki þurfi að horfa til þess. Ríkið hefur burði til að takast á við þetta, t.d. með sölu eigna eða með lántöku. Í öllu falli eru svo margar stórar grundvallarspurningar útistandandi sem lögfræðiálit fjármálaráðherra fjallar ekki um að ég tel nauðsynlegt að unnið verði lögfræðiálit fyrir þingið til að svara þessum spurningum. Ég óskaði eftir því í fjárlaganefnd í morgun að það yrði gert og það hefur verið samþykkt.

Ég tel að versta mögulega niðurstaða fyrir ríkissjóð sé sú að fjármálaráðherra setji sjóðinn í slitameðferð. Kröfuhafar myndu leita réttar síns fyrir dómi og jafnvel vinna málið. Þá gæti ríkið staðið frammi fyrir því að greiða fullt verðmæti fjárfestinganna og sitja eftir rúið trausti á mörkuðum. Verst fyrir heildarhagsmuni almennings er ef sjóðurinn er tekinn til skipta og það leiðir til þess að lífeyrisgreiðslur verði skertar og leiðir til þessa höggs fyrir góðgerðarfélög sem ég lýsti hér áðan.

Staðan er einfaldlega sú að fjármálaráðherra hefði best varið hagsmuni almennings með því að eyða ekki fyrstu tíu árunum sem fjármálaráðherra í að gera ekki neitt. Fjármálaráðherra hefur talað um að hann hafi ekki haft þetta mál á borðinu fyrr en árið 2020. Það er auðvitað ekki rétt því að hann er með ríkisábyrgðirnar og fer með yfirstjórn opinberra mála. Ef það væri rétt þá væri reyndar hér uppi mikið hættuástand, að fjármálaráðherra hefði í reynd ekkert um opinber fjármál að segja né um ríkisábyrgðir. En hlutverk okkar hér er að gæta almannahagsmuna og við verðum að sameinast um að leita lausna (Forseti hringir.) og þá er eðlilegt að menn setjist niður og ræði hvort lausn geti fundist en stórkarlalegar yfirlýsingar um gjaldþrot eða hótanir um lagasetningu voru afleit byrjun sem sést á viðbrögðum markaðarins (Forseti hringir.) og ég vil ljúka máli mínu á því að segja að ég hef óskað eftir því að fjármálaráðherra komi á opinn fund fjárlaganefndar og eftir þessu lögfræðiáliti (Forseti hringir.) því að það er hið rétta upphaf á meðferð þessa máls.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma.)