132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Tvöföldun Vesturlandsvegar.

198. mál
[14:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég segja að ekki er um að ræða neina aðgerð þarna sem hefur verið frestað. Það er verið að vinna þarna í raun hraðar en samgönguáætlunin gerði ráð fyrir. Ég tel að orð mín áðan hljóti að geta skilist þannig að þetta er ekki endanleg framkvæmd. Ég lýsti því yfir að tvær akreinar í hvora átt alla leið upp að Þingvallaafleggjara væri sú útfærsla sem við hljótum að gera ráð fyrir á þessari leið. Hins vegar liggur alveg fyrir að tveggja akreina leið er frá Langatangahringtorginu og niður að Skarhólabraut til borgarinnar en einungis ein akrein í hina áttina. Þetta er því mikil breyting fyrir þá sem koma snemma að morgni t.d. í umferðinni til borgarinnar og sá var tilgangurinn. En endanlegur frágangur, þ.e. þegar tvær akreinar verða á báðum brautum, er eftir. Þess vegna er þetta ekki fullnaðarútfærsla eða fullnaðarframkvæmd fyrr en svo verður.

Að öðru leyti fagna ég fyrirspurninni og umræðunni sem hér hefur skapast í kringum hana. Það er jafnan þannig á Alþingi að mikill áhugi er fyrir samgöngubótum og mikill stuðningur við samgönguráðherrann að hraða framkvæmdum, en í hvaða röð það á að vera er annað mál og vandast þá verkefnið því allir vilja fá sína framkvæmd strax og eru ekki tilbúnir til að sætta sig við annað. En ég þakka fyrir þessa umræðu.