139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera stöðu gagnavera á Íslandi að umræðuefni en þau búa við erfitt samkeppnisumhverfi nú um stundir. Annars vegar er lagður virðisaukaskattur á þjónustu sem þau selja erlendum viðskiptavinum sem erlendir viðskiptavinir geta ekki innskattað og hins vegar er lagður virðisaukaskattur á þann vélbúnað sem er í eigu viðskiptavina og er fluttur hingað til lands.

Innan Evrópusambandsins þurfa viðskiptavinir ekki að greiða virðisaukaskatt á vélbúnað en íslensk fyrirtæki þurfa að leggja 25,5% virðisaukaskatt ofan á og verða þar með dýrari. Eitthvað er nú skynsamlegt innan Evrópusambandsins, kæri þingheimur. Ráðuneytið þarf að ljúka þessari vinnu enda mikilvægt að starfsemi gagnavera sem eiga bjarta framtíð komist í fullan gang hér á landi. Þarna er á ferð græn orka, þau selja þjónustu sína á háu verði og þar eru hálaunaðir starfsmenn við vinnu. Erlend fyrirtæki sækja í þjónustu íslenskra gagnavera enda þurfa þau að greiða fyrir kolefnislosun en losna við þann kostnað með því að kaupa þjónustu af íslenskum fyrirtækjum. Þar með er kominn verðmiði á raungæði náttúrunnar, sem er vel, og ljóst að sóknarfæri íslenskra gagnavera eru mikil. Það er þess vegna mikilvægt að þessari vinnu á vegum ráðuneytisins verði flýtt.

Rétt áðan var mér kynnt í þingflokki Samfylkingarinnar að fyrri hluturinn væri í skoðun og verður lagt fram frumvarp í þinginu á næstu dögum þess efnis. Það er um virðisaukaskatt á þjónustu fyrirtækjanna, en enn er óleyst hvernig fer með virðisaukaskattinn á vélbúnaðinn. Mikilvægt er að sú vinna klárist á vegum fjármálaráðuneytisins sem allra fyrst og fái svo hraða afgreiðslu í þinginu.

Samtök gagnavera á Íslandi hafa stungið upp á lausn í þessu sambandi og er mikilvægt að kannað verði hvort sú hugmynd geti orðið grundvöllur að lausn millum ráðuneytisins og fyrirtækjanna. Það er mikilvægt að styrkja allan þann atvinnuveg sem getur verið enn einn vaxtarsprotinn í íslensku atvinnulífi.