140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þýðing skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á ensku.

194. mál
[19:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessari tillögu en ég hefði hins vegar áhuga á að spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur hvort þessi tillaga hefði komið til umræðu hjá forsætisnefnd eða fjárlaganefnd og hvort þá væri talin ástæða til að setja þetta sérstaklega þar inn nú, hvort við þyrftum nokkuð að álykta sérstaklega um það að við gerum eitthvað, þar með forseti Alþingis. Ef ekki er talin ástæða til þess núna spyr ég hvort þingmaðurinn hafi velt fyrir sér hvort hægt væri að setja þetta upp sem einhvers konar wikipediu-verkefni. Fólk gæti þá, áhugamenn um þetta, tekið að sér að þýða kafla og kafla og vinna sig í gegnum bindin þannig.

Ég tek hins vegar undir það að mjög margt í skýrslunni á erindi við fleiri. Ég efast ekki um að þeir sem til dæmis hafa staðið í dómsmálum hafa örugglega látið þýða þá kafla sem henta þeim. Þá er spurning hvort þeir gætu ekki tekið þátt í slíku verkefni og bætt þeim hluta inn í ef það væri þegar þýtt.

Ég held að þetta hljóti líka að geta verið þeim kjörnu fulltrúum í öðrum löndum, sem eru nú að fást við sambærilegan vanda og við þurftum að upplifa, erfiðan vanda, til ráðgjafar. Vonandi gætum við jafnvel séð fleiri rannsóknir af þessu tagi í þeim löndum í framhaldinu.