142. löggjafarþing — 23. fundur,  5. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[00:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst það hafa komið ágætlega fram í þessari umræðu um atkvæðagreiðsluna á hversu ótrúlega miklum villigötum umræðan er í reynd. Það getur enginn sagt hvað auðlindarenta er í raun og veru og hvað verið er að taka af greininni. Flöt krónutala miðað við þorskígildi reiknast út frá meðaltölum, tekur ekkert tillit til afkomu einstakra félaga og leggst með ósanngjörnum hætti á suma meðan hún er kannski eitthvað sanngjarnari fyrir aðra. Ef það á eitthvert vit að komast í þessa umræðu þarf að spóla til baka. Við erum með stórkostlega gallaða löggjöf um veiðigjöld eins og hún er í dag.

Ríkisstjórnin er á fáum dögum undir mikilli tímapressu að reyna að gera sitt besta. En ég frábið mér að umræðan eigi að snúast um það hversu mikið vantar í ríkiskassann vegna þess að þá ætti, ekki satt, eins og mér heyrist á sumum þingmönnum, að taka bara allan hagnaðinn af greininni. Af hverju bara ekki þessari grein? Af hverju ekki öðrum greinum? Þetta er umræða … [Frammíköll í þingsal.] Má ég fá að klára mál mitt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti? [Frammíköll í þingsal.] Þetta er umræða …

(Forseti (EKG): Gefið ræðumanni hljóð til að ljúka máli sínu.)

Ef þingmenn gæfu mér eina mínútu til að fá að tala í friði. (Forseti hringir.) Þetta er einmitt umræðan sem mun ekki skila okkur neinu, umræðan um að greinin verði (Forseti hringir.) að borga eftir því hvernig ástandið er í þjóðfélaginu. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)