145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er mjög hugsi yfir þeirri vegferð sem hér er í gangi í þessu máli. Ég spyr mig eiginlega hverju það sæti að við erum hingað komin. Fór hér af stað einhver atburðarás sem menn misstu einhvern veginn tökin á og síðan eru menn nánast skuldbundnir til þess að ganga einhverja götu sem þeir hafa ekkert endilega allt of góða sannfæringu fyrir? Ég spyr mig þegar ég fer yfir hvernig þetta mál er til komið.

Hér er verið að ræða stjórnarfrumvarp, sem hæstv. heilbrigðisráðherra leggur fram öðru sinni, sem byggir á þingsályktunartillögu sem upphaflega kom fram haustið 2010. En málið á sér lengri aðdraganda en það. Sú þingsályktunartillaga var að mínu mati afar gölluð vegna þess að hún gaf sér niðurstöðuna fyrir fram og setti málið í fyrir fram ákveðinn farveg. Síðan átti að sjálfsögðu að vinna og vanda málið og allt það, en niðurstaðan var gefin fyrir fram. Það skyldi heimila staðgöngumæðrun. Í máli af þessu tagi er slíkt skref, sem tekið er í miðju ferli í afar viðkvæmu máli, ekki gott upphaf að mínu mati.

Eins og aðstandendur frumvarpsins segja eðlilega þá hefur við undirbúning málsins verið leitast við að raungera markmið Alþingis eins og þau birtast í þingsályktuninni frá 18. janúar 2012, en þá hlaut endurflutt þingsályktunartillaga samþykki. Hver var bakgrunnur hennar? Hann var meðal annars sá að þetta mál var búið að vera á dagskrá og til umræðu og þáverandi ráðherra skipaði í janúar 2009 vinnuhóp til skoða siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun og hvort leyfa ætti staðgöngumæðrun á Íslandi, ekki að leyfa skyldi heldur hvort leyfa ætti. Þessi ágæti hópur, skipaður fagfólki, kemst að niðurstöðu eftir mikið ferli, opna fundi og hvaðeina og skilar henni 7. júní 2010. Þar eru rakin helstu rök með málinu, að þetta geti verið farsæl lausn á vanda para eða einstaklinga sem eiga við ófrjósemisvanda að stríða, og tíunduð helstu rök gegn staðgöngumæðrun. Þau segja að hætta sé á að litið sé á staðgöngumóðurina sem hýsil utan um barn og konan sé smættuð niður í æxlunarfæri. Það er vitnað til þess að almenn samstaða virðist vera um að ekki eigi að heimila staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en bent á að reynsla annarra, svo sem Breta, hafi sýnt að mjög erfitt sé að koma í veg fyrir slíkt ef þetta sé á annað borð leyft og að baki liggi alltaf sá möguleiki að konur verði kúgaðar til að selja afnot af líkama sínum með alveg nýjum hætti þegar út á þetta spor er komið og við blasi hættan á því að hinir vel eða betur stæðu misnoti aðstöðu sína gagnvart þeim sem lakar eru settir. Sömuleiðis sé verið í reynd með þessu farið að líta á börn sem söluvöru.

Vinnuhópurinn komst að niðurstöðu 7. júní 2010 á þá leið að með vísan til þess sem að framan greinir teldi vinnuhópurinn ekki tímabært að heimila staðgöngumæðrun að svo stöddu. Þetta er skýr niðurstaða faglegs vinnuhóps en engu að síður, strax í nóvember sama ár, leggur hópur þingmanna fram þingsályktunartillögu sem gengur þvert á niðurstöðu þessa hóps. Það verður því miður sporið sem Alþingi lendir inn á. Þvert á niðurstöðu hópsins er samt lögð fram þingsályktunartillaga um að leyfa skuli staðgöngumæðrun. Ég held að þessi aðdragandi verðskuldi nokkra athygli, virðulegi forseti, því að það er í kjölfar þess að endurflutt tillaga er samþykkt óbreytt 18. janúar 2012 sem setur málið í þann farveg sem við erum núna stödd í. Ég tel að Alþingi eigi að láta það eftir sér að spóla til baka. Þetta er nýtt þing, nýtt kjörtímabil og við erum ekki bundin á einn eða neinn hátt af þingsályktuninni frekar en við viljum. Við getum þess vegna komist aftur að þeirri niðurstöðu að starfshópurinn 2010 hafi haft rétt fyrir sér og sú staða sé í aðalatriðum óbreytt því að rökin sem þar voru meðal annars færð fram, með vísan til þess hvernig þessi mál standa í öðrum löndum, standa öll. Það hefur engin breyting orðið á afstöðu hinna Norðurlandaþjóðanna að leyfa ekki staðgöngumæðrun. Það er óbreytt löggjöf annars staðar á Norðurlöndum, sumpart mjög nýleg löggjöf sem gekk í þá átt að stöðva og loka fyrir smugur á staðgöngumæðrun eins og í Finnlandi sem stoppaði 2007 í göt sem áður voru þar í löggjöf.

Hversu mikil samstaða ríkir nú um þetta mál? Nefndin sem starfaði út árið 2009 og inn á árið 2010 benti meðal annars á að áður en staðgöngumæðrun yrði leyfð hér á landi þyrfti í öllu falli að ná almennri samfélagslegri sátt um málið og þann ramma sem settur yrði um staðgöngumæðrun, þetta væri mál af því tagi að það yrði að vanda vinnuna og ná almennri samfélagslegri sátt. Náðist hún? Hefur hún legið fyrir í þessu máli? Nei, þingnefndin þríklofnaði. Það voru mjög skiptar skoðanir um þetta og umsagnir fagaðila mjög margra, heilbrigðistengdra fagaðila og félagslega og siðfræðilega tengdra fagaðila, vísa aldeilis ekki til þess að samstaða hafi verið um þessa vegferð. Hún hefur ekki náðst. Þingnefndin þríklofnaði og þingmenn klofnuðu í allar áttir. Það náðist að vísu naumur meiri hluti á þingi fyrir tillögunni. (Gripið fram í: Naumur?) — 33 þingmenn, já, naumur meiri hluti á þingi, 33 í staðinn fyrir 32 sem er samkvæmt minni stærðfræði minnsti mögulegi meiri hluti á Alþingi, a.m.k. er það það sem þarf til að ríkisstjórn geti starfað og varið sig vantrausti, 13 greiddu atkvæði á móti, fjórir greiddu ekki atkvæði, fimm voru með fjarvist og átta voru fjarverandi. Það er ekki hægt að segja að það hafi legið fyrir einhver mjög eindreginn eða sterkur stuðningur við þetta mál á Alþingi. Alþingi var alveg þverklofið í allar áttir. Nú er komið nýtt þing og nýtt kjörtímabil. Þessi bakgrunnur málsins er mér mikið umhugsunarefni, herra forseti, þegar lagt er inn á brautir af þessu tagi.

Vissulega er í þessu frumvarpi búið að reisa ýmsar girðingar. Ég er ekki að varpa rýrð á vinnu þessa ágæta hóps en hann margtekur fram og í greinargerð er margtekið fram að hann var með bundnar hendur, menn voru með fyrirmæli um að semja löggjöf um að leyfa staðgöngumæðrun. (Gripið fram í: Frá Alþingi?) — Já, vissulega frá Alþingi, en Alþingi getur skipt um skoðun. Alþingi á að endurskoða hug sinn. Alþingi á aldrei að ana út í neitt að illa athuguðu eða lítt grunduðu máli. Hér er um mikið alvörumál að ræða, feiknalega viðkvæmt mál. Ef það er einhvers staðar sem menn eiga virkilega að vanda sig og leggja vinnu í að ná samstöðu þá er það í málum af þessu tagi.

Staðgöngumæðrun var sérstakt kappsmál tiltekinna þingmanna og vissulega voru heitar tilfinningar á báða bóga, líka mjög heitur stuðningur. En það verður bara að segja þá sögu eins og hún er, menn nýttu tilteknar aðstæður í þinginu til að knýja á um afgreiðslu þessa máls. Það er veruleiki sem við þekkjum mörg hér sem vorum á vettvangi. Ekki meira um það.

Hvernig er Ísland í stakk búið, í ljósi bakgrunns málsins og hversu skiptar skoðanir eru um það innan veggja þingsins, úti í samfélaginu og meðal fagaðila, til þess að ryðja brautina og stíga það skref sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki treyst sér til, hafandi haft þetta á dagskrá og þaulrætt það meðal sinna fagaðila í siðferðiráðum o.s.frv.? Niðurstaðan er engu að síður sú að staðgöngumæðrun er óheimil í hagnaðarskyni í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi og annars staðar á Norðurlöndum er einnig óheimilt að framkvæma tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæðum þeirra laga sem þar um gilda þannig að de facto er staðgöngumæðrun óleyfileg hjá öllum hinum Norðurlandaþjóðunum. Þó að það hafi verið til skoðunar þar og rætt hvort menn eigi eitthvað að breyta frá þeirri stefnu þá hefur niðurstaðan alls staðar, enn sem komið er, verið sú að gera það ekki. Meiri hluti siðferðiráða og annarra slíkra aðila hafa lagst gegn breytingu á þessum lögum. Þau eru tiltölulega nýleg. Lögin sem banna staðgöngumæðrun eru frá 1987 í Noregi, 1988 í Svíþjóð, 1997 í Danmörku og 2007 í Finnlandi. Ísland væri þá með öðrum orðum að fara í allt aðra átt en hin norrænu ríkin. Ég leyfi mér, með fullri virðingu fyrir okkur sjálfum, að efast um að það sé skynsamlegt í þessu tilviki. Ég hef enga minnimáttarkennd gagnvart því að Ísland ryðji brautina ef um góð framfaramál er að ræða sem sæmileg samstaða er um, en það er ekki einhlítt í þessu tilfelli og síður en svo. Við gætum einmitt verið að ana út í mikla ófærð. Ef við lítum til Evrópu í heild sinni þá er það undantekningin en ekki reglan að staðgöngumæðrun sé yfir höfuð leyfð. Hún er leyfð í örfáum löndum. Hún er bönnuð í langflestum löndum. Ég tel að sum fordæmin eins og í Úkraínu og þess vegna Grikklandi séu ekkert sérstaklega til að hrópa húrra fyrir. Það þarf ekki að fara alla leið til Indlands eða Kaliforníu til þess að sjá dapurlega reynslu í þessum efnum.

Hvaða vanda er verið að leysa og eru einhver önnur tiltæk úrræði til þess að takast á við hann? Ekki vil ég gera lítið úr ógæfu þeirra sem ekki geta eignast börn. Það eru margir kostir í boði, eins og ættleiðingar, tæknifrjóvganir og annað því um líkt. Tilvikin sem við gætum verið að ræða hér gætu verið alveg sárafá. Einhver talar um 10–15, en aðrir segja kannski þrjú til fimm eða eitthvað svoleiðis. Þá er í dálítið mikið ráðist þegar um afar viðkvæmt mannréttinda- og siðferðismál af þessu tagi er að ræða, að konur selji aðgang að líkama sínum með þessum hætti. Ég gef lítið fyrir á köflum aðgreininguna um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni eða velgjörðarskyni. Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gengur út á að eftir sem áður að megi væntanlegir foreldrar sem taka við barninu greiða allan kostnað. Það getur verið rýmilegt hvað fellur þá undir kostnað í þeim efnum. Hvernig ætla menn að hafa eftirlit með því að ekki séu samningar undir borðinu, t.d. þegar um staðgöngumæður í fátækum ríkjum erlendis væri að ræða? Hér er allt galopnað fyrir það að íslenskir foreldrar geti nýtt sér staðgöngu erlendis og stendur til að flytja sérstakt ákvæði um breytingu á lögum um ríkisborgararétt til að greiða fyrir því. Það er að mörgu að hyggja í þeim efnum.

Það vakna svo mörg álitamál og enn eru margir lausir endar í þessari löggjöf þó að menn hafi reynt að gera ýmislegt. Hvað þýðir til dæmis að ekki sé hægt að krefjast efnda eða fullnustu á viljayfirlýsingu sem menn hafa undirritað? Vel að merkja, ef ég skil þetta rétt, þá er hér gert ráð fyrir því að ganga lengra en eiginlega nokkurs staðar annars staðar er gert í þessum efnum þar sem staðgöngumæðrun er þó leyfð, nema kannski bara í Indlandi eða Kaliforníu eða einhvers staðar þar sem þetta er galopið og litið á það sem bisness. Það á að gera bindandi samning milli aðila fyrir fram. Það er yfirleitt ekki gengið svo langt annars staðar. Það er að vísu ekki hægt að knýja fram, samkvæmt þessu, efndir á honum en álitamálin sem upp geta komið eru svo ótal mörg þegar eitthvað kemur upp á, eins og ef staðgöngumóðurinni snýst hugur, ef aðstæður breytast öðrum hvorum megin, ef veikindi eða erfðagallar greinast o.s.frv.

Það er ágætt fyrir hv. þingmenn að lesa þann hluta frumvarpsins sem snýr að breytingum á barnalögum, ef ég man rétt. Það þarf að breyta fjölmörgum öðrum lögum sem sýnir hversu flókið þetta er. Í V. kafla frumvarpsins er langur listi sem er bandormur þar sem þarf að breyta heilmörgum lögum og endar á breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Lesi menn 40. gr. um breytingar á barnalögum — hvað oft er endað á dómstólum þegar upp koma álitamál, ef foreldri andast, ef allt í einu annað hvort væntanlegra foreldra óskar ekki eftir yfirfærslu á foreldrastöðunni, það kemur upp ágreiningur? Dómstólar, dómstólar, dómstólar í annarri hverri línu. Er þetta spennandi? Eru menn alveg sannfærðir um að þeir séu að leggja upp í leiðangur sem þeir sjá fyrir endann á? Það efast ég um.

En að lokum, virðulegur forseti, er mín andstaða við þetta frumvarp hugmyndafræðileg og siðferðileg. Ég get ekki sætt mig við það að við hlutgerum svona kvenlíkamann og ætlum konum það að aftengja sig móðurlífi sínu og lífi sem þar er að spretta og reyna einhvern veginn að fjarlægja sig og firra sig því að þær eigi nokkurn skapaðan hlut í því sem þar er að gerast. Ég held að sé nálgun sem eigi mjög erfitt uppdráttar ef við leggjum (Forseti hringir.) mannúðlegan, siðferðilegan og hugmyndafræðilegan mælikvarða á þetta mál og (Forseti hringir.) þá verði hinir hagsmunirnir að víkja.